140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Það er ákaflega mikilvægt þegar rædd er fjármögnun á þessari metnaðarfullu og góðu fjárfestingaráætlun að það sé hugað að smáatriðum og sagt sé rétt frá. Það er auðvitað ekki hugsunin að nota alla upphæðina sem kemur af áætlaðri sölu eignarhluta ríkisins í bankakerfinu til þessarar fjárfestingaráætlunar. Það er heldur ekki hugsunin að nota allt veiðigjaldið til þessarar áætlunar. Lagt er upp með að nota hluta af þessum væntanlegu tekjustofnum fyrir ríkið.

Ég held að enginn hafi haldið öðru fram þegar peningur var lagður í bankakerfið á sínum tíma en að sá peningur mundi koma til baka. Hér gerum við sem sagt ráð fyrir að peningurinn komi til baka annaðhvort með áætlun Bankasýslunnar um sölu vissra eignarhluta ríkisins — það vill stundum gleymast í umræðunni að ríkið á 41% í bankakerfinu á Íslandi — eða ef bankastjórnir ákveða að greiða arð.

Mér finnst, og það er hugsunin sem býr að baki þessari fjárfestingaráætlun, réttlætanlegt að nota peninga sem koma inn í ríkissjóð með þessum hætti annaðhvort til að greiða niður skuldir eða til að fjárfesta skynsamlega sem hjálpar okkur aftur að greiða niður skuldir. Þetta er sú leið sem er verið að fara, það er verið að nýta þennan pening í að greiða niður skuldir annars vegar og hins vegar til að fjárfesta sem hjálpar okkur síðan að greiða niður skuldir vegna þess að það mun skapa hagvöxt þegar fram í sækir.

Hins vegar á að sækja fé með veiðileyfagjaldi. Vissulega eru þeir til sem vilja ekki innheimta veiðileyfagjald, en ég hef skynjað umræðuna þannig að menn vilji að þjóðin fái hlutdeild í auðlindarentunni en deilt sé um útfærslur á því. Hér er vissulega lagt upp með að þetta prinsippatriði fari í gegn. Það er þá hluti af þessu veiðileyfagjaldi — vonandi í sem mestri sátt við sjávarútveginn því að við eigum eftir að sjá hvaða útfærsla kemur úr atvinnuveganefnd — sem fer til þessara fjárfestinga. Þetta er allt saman úthugsað og ég hvet fólk til að varast alhæfingar og taka tillit til smáatriða í þessari áætlun.

Svo fagna ég því af heilum hug og hjarta að hér sé verið að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Mér heyrist reyndar, og ég fagna því líka, vera sátt um útgjaldahlið þessarar áætlunar. Hún eykur fjölbreytni og (Forseti hringir.) skapar traustari grundvöll undir velferð á Íslandi. Það eigum við að gera og það útilokar að sjálfsögðu ekki önnur verkefni eins og (Forseti hringir.) í orkusölu sem vonandi verða líka grundvöllur að því markmiði að auka fjölbreytni.