140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega ekki ofsögum sagt að saga þessarar ríkisstjórnar við að koma einhverju lífi í atvinnumálin sé hörmungarsaga, hörmungarsaga ítrekaðra loforða og heita sem hafa öll verið svikin. Að sjá þessa fjárfestingaráætlun og orðskrúðið sem henni fylgir má segja að sé eins og að heyra þau gömlu lög sungin og leikin.

Ef við horfum á það að í mars 2009 setti núverandi ríkisstjórn fram svokallaða 100 daga áætlun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Þá átti að skapa um 4 þús. störf á skömmum tíma, 4 þús. störf til að bregðast við atvinnuleysinu, þar af 1.200 í byggingariðnaði. Í samstarfsyfirlýsingu flokkanna þegar ríkisstjórnin var mynduð var sami tónn sleginn, með leyfi forseta:

„Meginverkefni ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum verður að draga úr atvinnuleysi með markvissum aðgerðum, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar.“

Einnig segir:

„Nú þegar hefur ríkisstjórnin ráðist í brýnar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi sem skila eiga 6.000 ársverkum á næstu mánuðum og missirum.“

Þetta var sagt í maí 2009. Þann 25. júní 2009 var gerður stöðugleikasáttmáli við aðila vinnumarkaðarins, boðuð ný sókn í atvinnumálum og þúsundir starfa áttu að skapast, um 14 þús. störf á þremur árum. Fjárfestingarverkefnin áttu að nema á þessum tíma allt undir 1 þús. milljarða, 280–380 milljarða á ári, og það átti að ná verðbólgu niður fyrir 2,5% fyrir árslok 2010. En blekið var ekki þornað á þessum pappírum þegar aðilar vinnumarkaðarins voru farnir að gera alvarlegar athugasemdir. Við vitum öll um afdrif stöðugleikasáttmálans sem varð til þess að ASÍ og Samtök atvinnulífsins lýstu yfir algeru vantrausti á ríkisstjórnina og segjast ekki hafa neitt frumkvæði að frekara samstarfi við hana á þessum vettvangi.

Við getum minnst á fundi ríkisstjórnarinnar í landshlutum. Sennilega er þekktasti fundurinn með þeim á Suðurnesjum þar sem var nefnt í ræðum að skapa ætti 7 þús. störf með 300–400 milljarða fjárfestingu. Eitt starf er gantast með á Suðurnesjum við eitthvert herminjasafn hefur litið dagsins ljós.

Kjarasamningar í maí 2011. Ríkið ætlaði að ráðast í fjölda verklegra framkvæmda á árinu 2011 og 2012. Sjáum við eitthvað til þeirra?

„Fram undan eru á næstu árum verkefni […] sem skapa munu um 7 þús. störf. Til viðbótar koma framkvæmdir í orkugeiranum og tengdum fjárfestingum en þar er líklega um sambærilegan fjölda nýrra starfa að ræða.“

Ef við sjáum kosningaplagg Samfylkingarinnar sem tekur til næsta kjörtímabils er loforðalistinn álíka þéttur og sápukúlur. Þar eru nýjar áherslur. Nú er ekki minnst á orkufrekan iðnað eins og var gert áður. Ríkisstjórnin hefur gefist upp. Það er ekki minnst á orkufrekan iðnað vegna þess að staðan í rammaáætlun er svo viðkvæm innan ríkisstjórnarinnar að hún mun ekki koma því verkefni áfram.

Þá getum við litið til þess hvaða umsagnir við erum að fá um niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í rammaáætlun sem hún ætlar að leggja fyrir þingið:

Gamma segir að þetta muni kosta okkur um 270 milljarða í fjárfestingum á næstu þremur árum og 5 þús. störf árlega fyrir utan afleidd störf sem verði að lokum um 13–14 þús. störf árlega miðað við reikniformúlu ríkisstjórnarinnar. Þar liggur í raun okkar mikla tækifæri.

Umsagnir aðila vinnumarkaðarins. Við fengum t.d. ASÍ á fund atvinnuveganefndar í morgun. Þar hafa menn miklar áhyggjur og gera alvarlegar athugasemdir og telja þetta brot á því sem við þá hefur verið rætt fram að þessu. Það er ekkert öðruvísi. Af hverju hafa þeir áhyggjur? Þeir hafa áhyggjur af afkomu almennings. Reyndar hafa ákveðnir fulltrúar náttúruverndarsamtaka sagt á fundi nefndarinnar, út af þessu sama máli, að ekki þurfi að bæta lífsgæði á Íslandi, þau séu næg fyrir. Tækifærin liggja þarna.

Á sama tíma og ríkisstjórnin ætlar að draga úr fjárfestingum í sjávarútvegi með því að taka peninga þaðan á að leggja áherslu á þessi verkefni. Á meðan við veikjum höfuðatvinnugreinar landsmanna, sem eru orkufrekur iðnaður og sjávarútvegur, förum við í verkefni sem maður gæti haldið að fara ætti í á góðæristímum. Í stað þess að efla þessa grunnatvinnuvegi og skapa verðmæti og störf ætlum við að fara í grænar fjárfestingar, grænan fjárfestingarsjóð, grænkun fyrirtækja fyrir 1,5 milljarða, vistvæn innkaup, olíuskipti í skipum. Þetta er allt gott og blessað, það er fjöldi góðra verkefna í þessari áætlun, en áherslurnar eru einfaldlega rangar.

Forræðishyggjan er mikil. Atvinnulífið er lamað og ríkið virðist eiga að vera upphaf og endir alls. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart þjóðinni og atvinnulífinu er forkastanleg í þessum efnum. Við vitum hvað atvinnuleysið kostar okkur, sennilega um 300 milljarða og upplausn fjölskyldna. Hér er verið að halda flugeldasýningu, virðulegi forseti, sem hefur mikil skammtímaáhrif. Það er gaman meðan á henni stendur, hana tekur fljótt af en það verður því miður jafnkalt og jafndimmt þegar heim verður komið.