140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ísland hefur nú þegar vakið athygli fyrir þann árangur sem náðst hefur í að rétta við ríkisfjármálin á alþjóðlegum vettvangi. Ég held að ekki sé unnt að neita þeim árangri þó að menn reyni það stundum í þessum sal.

Mín sýn á þessa fjárfestingaráætlun er sú að hún sé liður í efnahagslegri endurreisn landsins eftir þann árangur sem hefur náðst. Það er líka mín sýn að það sé nauðsynlegt að fá innspýtingu í íslenskt atvinnulíf sem byggir á skynsamlegum grunni til að við getum flýtt fyrir þessari endurreisn. Ætlunin er, eins og hér hefur komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum á undan mér, að nýta aðeins hluta veiðigjalds, hluta arðs af bönkum og hluta af söluhagnaði í bönkum í þessa innspýtingu því að mikilvægt er að hvika heldur ekki frá þeim markmiðum sem við höfum um að ná til lengri tíma litið jöfnuði í ríkisfjármálum.

Sú hugmyndafræði sem hér er stuðst við byggir á grunni sóknaráætlunar sem við ræddum á þingi í hittiðfyrra, en sú áætlun byggði til að mynda á víðtæku samráði við hagsmunaaðila í ólíkum geirum samfélagsins, þjóðfundum í landshlutum þar sem leitað var eftir hugmyndum innan ólíkra landshluta og samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga. Niðurstaðan varð aðgerðaáætlun til að efla atvinnulíf og samfélag og það sem var svo merkilegt við þá niðurstöðu var að hún byggði einmitt á hugmyndafræðinni um fjölbreytt atvinnulíf, að það væri að sjálfsögðu rétt að byggja áfram á grunnatvinnuvegum þjóðarinnar en ekki síður á nýjum tækifærum. Þessi fjárfestingaráætlun byggist á því grunni sem miðast líka við ný tækifæri.

Hér hafa menn rætt um að sum af þessum verkefnum séu eingöngu góðærisverkefni. Ég veit ekki nákvæmlega hvað er átt við. Ég held að þetta snúist um framþróun í atvinnulífi. Það er til að mynda nákvæmlega það sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið fyrir í pólitískri umræðu, þ.e. að við byggjum atvinnulíf okkar á fleiri en einni stoð og ég nefni þar nýsköpun, tækniþróun og rannsóknir sem eru eitt af lykilatriðunum í þessari áætlun ef við ætlum að byggja upp samfélag sem byggist á þekkingu sem er sú auðlind sem ekki þrýtur. Það er þangað sem við eigum að stefna ef við ætlum að byggja hér sjálfbært samfélag og þá verðum við að huga að því að öflugasta auðlindin í þeim efnum er mannvitið. Það getum við ræktað hér á landi, en það gerum við ekki nema með því að efla til að mynda þá samkeppnissjóði sem hér er lagt til að efla, Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð. Sú hugmyndafræði byggir á samþykktri stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs þar sem saman koma fulltrúar háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs þannig að ég get ekki litið öðruvísi á en svo að þessi stefnumörkun sé nákvæmlega í takt við það.

Ég nefni skapandi greinar. Talsvert hefur verið unnið í tíð þessarar ríkisstjórnar að því að greina hagræn áhrif skapandi greina. Það kom mörgum mjög á óvart í þessum sal og merkilegt kannski að ekki hafi verið rætt oftar að hagræn áhrif skapandi greina velta jafnmiklu og áliðnaðurinn á Íslandi. Samt gleymast þær stundum af einhverjum orsökum þegar rætt er um atvinnuuppbyggingu, en þar liggja svo sannarlega tækifæri og með því að virkja þá sjóði sem við eigum, verkefnasjóði á sviði skapandi greina, hvort sem það er Kvikmyndasjóður, tónlistarsjóður eða fleiri, getum við náð ótrúlegum árangri. Ég leyfi mér að segja að í starfi mínu hef ég orðið vör við ótrúlegan alþjóðlegan áhuga á því sem hefur verið að gerast í íslensku lista- og menningarlífi þegar fólk bendir á þá staðreynd að hjá þessari þjóð liggja sóknarfæri og þau byggja á mannviti.

Ég nefni líka græna hagkerfið og þar liggur líka undir stefnumörkun. Samþykkt var þingsályktunartillaga um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, eins og kom fram hjá hv. þm. Skúla Helgasyni áðan, þar sem flokkarnir lögðu saman í púkk hugmyndir til uppbyggingar á grænum forsendum. Þessu held ég að við megum ekki gleyma. Allt byggir þetta á stefnumörkun sem hefur farið fram á ólíkum vettvangi þar sem margir hafa verið kallaðir til.

Ég nefni sóknaráætlanir landshluta því að þetta miðast líka við byggðaaðgerðir. Það er sú stefnumörkun sem ég nefndi áðan og byggði m.a. á þjóðfundum í landshlutunum.

Síðan eru það verklegar framkvæmdir sem ég tel að skipti líka miklu máli. Við vitum að sjálfsögðu að byggingariðnaðurinn er sú grein sem fór hvað verst út úr hruninu og þar hefur atvinnuleysið verið hvað mest. Það skiptir miklu máli að við fáum innspýtingu í þann iðnað til að mynda með því að hefja byggingu húss íslenskra fræða og eru fleiri byggingar nefndar á ýmsum sviðum.

Svo minnst sé á samgönguframkvæmdir þá höfum við aldeilis rætt samgönguáætlun á undanförnum mánuðum. Við vitum að þar þarf víða að gera bragarbót á.

Ég lít svo á að þessar hugmyndir byggist á skynsamlegri forgangsröðun fjármuna sem varlega eru áætlaðir út frá þeim hugmyndum sem við getum gert okkur annars vegar um innheimtu veiðigjalds og hins vegar arðs og söluhagnaðar frá bönkunum. Ég lít ég svo á að varlega sé farið þegar kemur að tekjuhliðinni og reynt sé að ná sem mestum þjóðhagslegum ávinningi út úr því hvernig þeim fjármunum er varið til að efla atvinnustig.

Við megum ekki gleyma því að atvinnuleysið hefur minnkað um 3 prósentustig og það er hægt og bítandi að færast í rétta átt og við viljum sjá það fara niður. Bent hefur verið á af hv. formanni Framsóknarflokksins að hér er atvinnuleysi lítið miðað við önnur Evrópulönd og við megum vera þakklát fyrir það. Við megum þó ekki sætta okkur við það og eigum að stefna að því að ná því niður. Þessi áætlun skiptir máli til að ná því markmiði en það skiptir líka máli að því markmiði verði náð með fjölbreyttum hætti þannig að við endurtökum ekki þau mistök sem stundum hafa verið gerð, að setja öll egg í sömu körfu, heldur byggjum atvinnustefnu sem byggist á fjölbreytni þar sem frumkvæði einstaklinganna fær að blómstra. Það gerum við ekki síst með því að virkja mannvitið eins og hér er lagt til.