140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja okkur þessa skýrslu og verða við beiðninni um það. Ég vil líka segja að það er ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli loks leggja fram eitthvað sem gæti virst eins og áætlun til að rífa hlutina af stað. Það voru því ákveðin vonbrigði þegar maður las í fréttum og á vefnum um innihald áætlunarinnar og ég ætla að leyfa mér að fara yfir það, frú forseti.

Það kemur fram að settir eru ákveðnir fyrirvarar fyrir því að þessi tillaga geti gengið upp. Stærstu fyrirvararnir lúta vissulega að því hvernig afla eigi þeirra fjármuna sem þarf til að láta slíka áætlun ganga eftir.

Það verður líka að segjast eins og er og benda á það að framkvæmdirnar sem hér eru nefndar eiga ekki að gerast fyrr en á næsta ári eftir kosningar. Hér virðist því um að ræða plagg sem er fyrst og fremst ætlað til að gefa tóninn og vera einhvers konar kosningaplagg inn í komandi vikur og mánuði í þinginu og úti í samfélaginu.

Annað sem vekur athygli í þessu plaggi er að sérstaklega er tekið fram að hækkun á veiðigjaldi eigi að renna til að styrkja sóknaráætlanir landshluta. Ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þetta er sett fram svona. Hvers vegna er bankasalan til dæmis ekki sett í að styrkja sóknaráætlun landshluta? Getur verið að þetta sé gert til að reyna að blekkja þá sem búa úti á landi og fá þá til fylgilags við hin vonlausu sjávarútvegsfrumvörp sem hér hafa komið fram og eru föst einhvers staðar í kerfinu? Menn átta sig reyndar ekki alveg á því hvar þau eru föst.

Það sem er gott við þetta plagg er að við sjáum tvo, þrjá nýja hluti í því, fleira er ekki nýtt í þessu, það verður að segjast eins og er. Þá hluti getum við öll tekið undir, þ.e. reyna að auka þann græna vöxt sem á að vera í öllum samfélögum. Það verður hins vegar að segja að það fer lítið fyrir því. En auðvitað þýðir ekki að koma með plagg sem er háð því að frumvörp um hluti eins og veiðigjaldið sem er í meðferð nefndar nái fram að ganga af fullum krafti þegar nánast er vitað að því verður breytt að einhverju leyti.

Það er líka mjög undarlegt að setja sem forsendu sölu á hlutum í fjármálafyrirtækjum sem eru líklega þau fyrirtæki sem síst ganga kaupum og sölum í dag. Ekki það að ég sé að leita eftir slíku fyrirtæki til kaups, en ég ímynda mér að það sé mjög erfitt að selja slík fyrirtæki. Ef það á að nota arðgreiðslur út úr þessum fyrirtækjum verðum við líka að gera okkur grein fyrir því að það eru erlendir aðilar, erlendir vogunarsjóðir sem munu fá obbann af þeim arðgreiðslum nema settar verði einhverjar skorður við því og ég veit ekki hvort uppi eru einhverjar hugmyndir um slíkt.

Það er líka nauðsynlegt, frú forseti, að taka fram að í þingnefndum og í þinginu eru fjölmörg mál sem eru miklu stærri og veigameiri að vöxtum en þessar tillögur ríkisstjórnarinnar, mál sem eru föst í nefndum og hafa ekki verið tekin út. Ég ætla bara að nefna tvö mál vegna þess að tími minn er nánast búinn. Það er annars vegar tillaga til þingsályktunar um stöðugleika í efnahagsmálum sem þingmenn Framsóknarflokksins fluttu og síðan tillaga til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum. Sú tillaga er upp á tugi blaðsíðna og þar er farið mjög ítarlega, í ellefu liðum, yfir það hvað þarf að gera til að koma hjólunum af stað aftur í íslensku samfélagi. Það hefur ekkert verið gert með þessa tillögu, ekki neitt. Þessar tillögur voru settar fram til að hægt væri að grípa til þeirra strax, ekki eftir kosningar. Þær áttu ekki að vera kosningaplagg heldur voru þær settar fram í upphafi þings í október til að hægt væri að vinna sem hraðast að því að hrinda þeim í framkvæmd þannig að þær mundu snúa hjólunum af stað aftur. Það er gott að ríkisstjórnin skuli hafa komið sér saman um að setja fram eitthvert plagg sem þetta en það er bara ekki nógu gott.