140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom við upphaf umræðunnar um skattafrumvarpið var á það bent að að mörgu leyti hefði verið eðlilegra að taka þingsályktunartillöguna á undan. Það hefur hins vegar ekki verið gert í þau sennilega tvö skipti sem þessi mál hafa verið sett á dagskrá þingsins og ég hef sjálfur ekki talið ástæðu til að gera stórmál út af því, einfaldlega vegna þess að það er ljóst að lagafrumvarpið fer í þrjár umræður en þingsályktunartillagan bara tvær. Ef við gefum okkur að þessi mál hafi stuðning í þinginu er ljóst að málsmeðferð um þingsályktunartillöguna lýkur á undan málsmeðferð um lagafrumvarpið.

Þess vegna spyr ég eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hvort það séu einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að þingsályktunartillagan er tekin fyrir á undan núna miðað við dagskrá þingsins, hvort fyrir því séu einhver sérstök rök að bregða frá þessu vegna þess að auðvitað er ágæt regla að klára eitt verkefni (Forseti hringir.) áður en byrjað er á öðru.