140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fundarstjórn.

[17:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekki í efa að forseti hefur samkvæmt þingsköpum heimild til að raða dagskránni með þessum hætti. Það sem ég hef hins vegar spurt um, sem og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, var eiginlega hvort einhver sérstök ástæða væri fyrir því að þessi háttur væri hafður á, hvort það væru einhver sérstök rök fyrir því. Fyrst sú staða var á annað borð komin upp að umræða um lagafrumvarpið var hafin og er í miðjum klíðum hefði ég talið eðlilegra að ljúka 2. umr. um það áður en byrjað er á síðari umr. um þingsályktunartillöguna.

Eins og ég segi dreg ég ekki í efa heimild forseta til að haga þessu með þeim hætti sem hér er gert en þetta kemur svolítið á óvart vegna þess að hin umræðan hafði ekki klárast, umræðan um lagafrumvarpið, og ég held að flestir hafi gert ráð fyrir því að hún héldi áfram til loka og að þingsályktunartillagan yrði síðan tekin fyrir. Ef það eru einhver sérstök rök fyrir því, t.d. hagkvæmnisrök eða pólitísk rök, að taka þetta í annarri röð en hefur verið gert til þessa væri gott að hæstv. forseti upplýsti um það.