140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmanni er mætavel kunnugt var umræða um þetta mál alls ekki tæmd. Það var gerð var grein fyrir því á fundi utanríkismálanefndar þegar hv. þingmanni lá svo óskaplega mikið á að hann gat ekki einu sinni beðið til loka fundar þegar nefndin var orðin fullmönnuð heldur þurfti að taka málið út á fyrstu þremur mínútum fundarins.

Það getur ekki verið eðlileg málsmeðferð, ég geri verulegar athugasemdir við hana og vil gera það hér í ræðustól á Alþingi til að koma í veg fyrir svona vinnubrögð, þau voru ólíðandi. Ég vil að það sé gert heyrinkunnugt hér að málið var alls ekki fullrætt í nefndinni. Óskað var eftir meiri umræðu um það, þó ekki væri nema til loka fundarins. Þess ber einnig að geta að þessi reglulegi fundur hv. utanríkismálanefndar tók ekki einu sinni allan (Forseti hringir.) fundartímann en þegar óskað var eftir því í lok fundar að taka málið upp að nýju var ekki heldur orðið við því.