140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki öllu máli skipta hver er hausinn á þessum IPA-styrkjum. Þetta eru IPA-styrkir, þetta eru styrkir sem eru sagðir eiga að vera til aðlögunar stofnana til hins og þessa, en eru klárlega notaðir í áróðursstarfsemi. Það getur varla hafa verið hugmyndin þegar Íslendingar fóru í þetta ferli að Evrópusambandið mundi fjármagna sérstaklega áróður þessarar Evrópustofu eins og ég er að benda á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um annað, af því að hv. þingmaður er greinilega ekki algjörlega inni í þessu máli. Meðal þeirra verkefna sem rætt er um að fái IPA-styrki er Jarðvangur, þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæði. Í mínum huga er þetta verkefni afar spennandi og áhugavert og skemmtilegt. Ég held að það yrði mikill sómi ef við Íslendingar gætum farið í þetta verkefni á okkar forsendum, en að nota þróunarstyrki í svona verkefni — burt séð frá því hvað verkefnið er gott — lítur út eins og (Forseti hringir.) að kaupa sér „goodwill“.