140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vildi fyrst spyrja af hverju ræðutíminn var styttur niður í eina mínútu þegar aðeins þrír voru í andsvari. Er það ekki rétt hjá mér? (Gripið fram í: Það voru fjórir.) Voru þeir fjórir, afsakið, þá hef ég tekið vitlaust eftir.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð við ESB við Íslands innan ramma stuðningsaðgerðar sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB, svokölluð IPA-þingsályktun. Þetta er þingsályktunartillaga með mjög löngu nafni.

Ég ætla að byrja á því að ítreka mótmæli mín við dagskrá fundarins og ófullnægjandi svör hæstv. forseta og það að ekki hafi verið orðið við beiðni minni um að fundi væri frestað og þingflokksformenn kallaðir saman. Mér finnst í hæsta máta óeðlilegt að frumvarp sem er hér til umræðu og hefur verið til umræðu um sama mál sé lagt til hliðar áður en umræðu um það lýkur og þetta mál tekið fyrir. Við höfum farið yfir það og gerðum það í umræðunni áðan að það kom okkur vissulega á óvart að frumvarpið var sett á dagskrá fyrst, upphaflega, en þannig var það enda kom berlega í ljós í andsvörum áðan að hv. þingmaður og framsögumaður 1. minni hluta, Árni Þór Sigurðsson, hafði ekki svör við þeim spurningum sem enn er ósvarað í frumvarpinu, t.d. um það. Ég hélt hér ræðu fyrir tómum sal eða af stjórnarandstæðingum í umræðu um frumvarpið þar sem ég spurði meðal annars þeirrar spurningar sem hv. þingmaður fékk í andsvörum áðan, af hverju rammasamningurinn og frumvarpið lágu ekki fyrir fyrr en eftir áramót, 24. janúar, þegar samningurinn var kláraður 8. júlí.

Mér finnst þetta vera lykilspurning sem við höfum ekki enn fengið svör við. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gat ekki svarað því og hæstv. utanríkisráðherra gat ekki svarað því við fyrri umr. um þetta mál. Núna erum við langt komin með 2. umr. frumvarpsins og erum að hefja síðari umr. um þingsályktunartillöguna og þessu er enn ósvarað. Það tel ég ófullnægjandi og óska eftir að fá svör um það.

Undir nefndarálitið sem ég mun nú mæla fyrir rita sú sem hér stendur og hv. þingmenn Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, sem var varamaður hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar þegar málið var afgreitt úr utanríkismálanefnd. Fjallað hefur verið um það hér hvernig sú afgreiðsla fór fram og við þá afgreiðslu er hægt að gera miklar athugasemdir.

Með tillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að samþykkja rammasamning þann sem ríkisstjórnin gerði 8. júlí við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins, svokallaðir IPA-styrkir. Samningurinn er gerður í samræmi við regluverk ESB og fjallar í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfun þeirra.

Annar minni hluti utanríkismálanefndar bendir á að með flutningi þessarar tillögu og afgreiðslu hennar viðurkenna loksins ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar í utanríkismálanefnd Alþingis að aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins leiðir ekki til þess að einungis sé verið að „kíkja í pakkann“ í Brussel eins og margir virðast halda heldur er óhjákvæmilegt að laga innviði umsóknarríkisins, lög þess og stjórnsýslu að kröfum ESB. Það felst beinlínis í nafni tillögunnar. Afgreiðsla tillögunnar úr utanríkismálanefnd, sem nefnd var áðan, og afstaða 1. minni hluta sýnir einnig að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa gefist upp við að hylma yfir hið rétta eðli aðildarumsóknarinnar, hún hefur leitt til aðlögunarferlis. Um það er ekki hægt að deila hversu mjög sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson reynir að bera á móti því hér á Alþingi. Það er staðreynd að IPA-styrkir eru veittir umsóknarríkjum til að standa undir kostnaði við aðlögunina. Þetta er ekkert flóknara en það.

Annar minni hluti telur að hvorki ESB-umsóknin sjálf né aðlögunarviðræðurnar gefi tilefni til að samþykkja þennan samning eða setja sérstök lög um framkvæmd hans, og þá er vísað til þess frumvarps sem er ekki búið að ljúka 2. umr. um eins og áður kom fram. Þær aðgerðir einar fela í sér aðlögun að kröfum ESB og eru með öllu ótímabærar í ljósi þess að allt er í meiri óvissu en nokkru sinni fyrr um framvindu viðræðnanna vegna hótana ESB um refsiaðgerðir gegn Íslendingum til að brjóta makrílveiðarnar á bak aftur og vegna meðalgöngu framkvæmdastjórnar ESB við hlið Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Í dag bárust þær fréttir að málið verði tekið þar fyrir 18. september og verður gaman að fylgjast með því hvort stemningin fyrir IPA-styrkjunum verður sú sama þá.

Utanríkismálanefnd var kynnt svokölluð landsáætlun IPA 2011. Ég vil taka það sérstaklega fram að þau verkefni sem hér um ræðir eru öll góðra gjalda verð. Þau eru gagnleg og gagnmerk og jafnvel þess eðlis að þverpólitísk samstaða hefði getað myndast um þau ef öðruvísi hefði verið haldið á málum og í betra efnahagslegu árferði óháð aðildarviðræðunum við ESB. Ég verð að segja að þegar maður skoðar þessi verkefni, við getum nefnt uppbyggingu á Natura 2000, samstarfsnet á Íslandi og innleiðing vistgerða og fuglatilskipana ESB, hagtölur í samræmi við reglugerðir 2223/1996 og 479/2009 um þjóðhagsreikninga sem Hagstofan fer með, uppbyggingu á rannsóknarstofum og gæðakerfi vegna matvælaeftirlits, það er óákveðið hver er viðtakandi þeirrar aðstoðar, þýðingar á ESB-gerðum, Jarðvang, þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið, menntun fyrir fleiri og betri störf, víðtækar aðgerðir til að efla menntunarstig og atvinnu og tæknilegur stuðningur vegna NIPAC-skrifstofu í utanríkisráðuneytinu. Allt eru þetta eflaust mjög fín verkefni og það var einmitt áberandi í vinnu nefndarinnar að forstöðumenn stofnana og forsvarsmenn rannsóknarsjóða sem sækja um á grundvelli þessa styrkjakerfis börðust auðvitað fyrir því að þetta yrði samþykkt. Ég hef fengið mörg símtöl úr mínu kjördæmi vegna þess að það eru styrkir í þessu ferli sem eru til að styrkja fín verkefni á Suðurnesjum og Suðurlandi. Ég ítreka það að andstaða mín við þessa IPA-styrki hefur ekkert með þau verkefni að gera. Þetta hefur með það að gera að það er ógeðfellt að taka á móti styrkjum sem eru beinlínis til þess fallnir að aðlaga íslenskt samfélag, íslensk lög og íslenskar reglur að Evrópusambandinu á meðan stjórnvöld halda því statt og stöðugt fram og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson síðast áðan að hér séum við ekki í neinu aðlögunarferli, alls ekki, og við höfum fengið samþykkt ESB fyrir því. Því er haldið fram. Af hverju erum við þá á sama tíma að taka við þessum styrkjum? Það er mér algerlega hulin ráðgáta.

Það vekur líka athygli varðandi þessi verkefni að þau eru mistengd aðildarumsókninni. Sem dæmi má nefna, sem ég minntist á áður, verkefni um að efla fullorðinsfræðslu fólks með litla eða enga formlega menntun eða umrædda vinnu við þróunaráætlun til eflingar atvinnu- og byggðaþróun á Eyjafjallajökulssvæðinu. Hvað kemur það Evrópusambandinu við? Af hverju er Evrópusambandið að veita styrki samkvæmt yfirskriftinni til að fjármagna aðstoð við umsóknarríki ESB um einhver verkefni sem snerta ekki ESB-aðildina? Við þeirri spurningu væri fróðlegt að fá svar. Þessi verkefni eru að sjálfsögðu góðra gjalda verð en vandséð er hvernig þau tengjast aðildarviðræðunum með beinum hætti. Er þeim ætlað að veita innsýn í regluverk byggðaþróunarsjóðs og félagsmálasjóðs ESB, að kenna íslenskum stofnunum og rannsóknarsjóðum og fleiri aðilum á kerfið? Það gæti verið, en rökstuðningur um nauðsyn þess að ráðast í þau á meðan á aðildarviðræðum stendur liggur ekki fyrir.

Verkefni eins og að efla þjóðhagsreikninga Hagstofunnar til að bæta stefnumótun á sviði efnahagsstefnu og peningamála eru sömuleiðis góðra gjalda verð. Við fengum fulltrúa Hagstofunnar á fundi nefndarinnar oftar en einu sinni og fórum yfir þetta. Sumt af þessu er vegna gamalla krafna og skilyrða vegna EES-samningsins, skilyrða sem við höfum vitað af til fjölda ára. Við höfum ekki forgangsraðað þessu við úthlutun fjármuna frá hinu háa Alþingi. Við fjárlagagerð höfum við greinilega ekki sett þessi verkefni efst í forgang. En vegna þess að þetta er skilyrði af hálfu Evrópusambandsins er Hagstofan að sjálfsögðu mjög opin fyrir því að sækja um IPA-styrk til að klára þessi verkefni og til að koma þeim í farveg en þetta verkefni hefur einfaldlega ekki verið nógu ofarlega á verkefnalista stjórnvalda. 2. minni hluti vill leggja áherslu á að það er íslenskra stjórnvalda að forgangsraða verkefnum. Forgangsröðun verkefna á að gerast við fjárlagagerðina og af hálfu íslenskra stjórnvalda en ekki þegar erlent styrkfé býðst með óeðlilegum hætti eins og raunin er nú í tengslum við aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Annað mál sem hefur hlotið styrk snertir skattkerfið. Á opnum fundi utanríkismálanefndar með hæstv. utanríkisráðherra spurði ég hann um starfsauglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu frá ríkisskattstjóra en þar var verið að auglýsa eftir starfsmanni til að aðlaga tölvukerfi skattsins að kröfum Evrópusambandsins. Það var sett beint í starfsauglýsinguna en samt er því haldið fram hér að við séum ekki í neinu aðlögunarferli. Við þessu hef ég ekki enn fengið neinar skýringar og hæstv. ráðherra kannaðist ekkert við þetta.

Með því að ráðast í þessi verkefni undir þeim formerkjum sem hér er gert, að það sé óhjákvæmilegt vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu, er líka brugðið upp rangri mynd af stöðu aðildarmálsins á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Þá var einnig gefið til kynna með samþykkt þessarar tillögu að líklegt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ég tel að það sé röng ályktun. Ég held að það sé ekki líklegt að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ríkisstjórninni tókst að framlengja líf sitt í dag með atkvæðagreiðslu sem snerist ekki um Evrópusambandið fyrst og síðast eða hvort setja ætti aðildarviðræðurnar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða skoðanakönnun um stjórnarskrármálið. Nei, sú atkvæðagreiðsla í dag eins og allar atkvæðagreiðslur sem hafa verið um ESB-málið snerist um líf ríkisstjórnarinnar og áfram höktir hún með stuðningi frá Hreyfingunni og þingmönnum utan flokka. Allt er þetta nokkuð veikt. (MÁ: Og einum sjálfstæðismanni.) Slík yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar að það sé líklegt að Ísland gangi í Evrópusambandið, slík yfirlýsing af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar er allsendis ótímabær og er í rauninni aðeins til þess fallin að veikja stöðu aðildarviðræðna, sem ég veit að hv. þm. Mörður Árnason er ákafur talsmaður fyrir. Þetta er til þess fallið að veikja stöðu viðræðnanna og viðræðunefndarinnar þar sem málsvarar Evrópusambandsins líta að sjálfsögðu svo á að úthlutun IPA-styrkja úr ESB-sjóðum leiði til þess að sambandið og fulltrúar þess eignast náttúrlega hönk upp í bakið á þeim sem styrkina hljóta.

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að frá árinu 1994 hafa öll ný aðildarríki ESB notið styrkja af þessu tagi til að búa þau undir aðild að Evrópusambandinu. Litið er á þessa styrki sem tæki til að koma ár ESB fyrir borð og breyta samfélögum á þann hátt að falli að hagsmunum ESB enda liggur það í hlutarins eðli að fé yrði ekki veitt úr sjóðum ESB nema í þessum tilgangi, sjálft heiti styrkjanna gefur þennan tilgang til kynna. Þetta á ekki aðeins við um Ísland. Það er nefnilega svo skrýtið að ég held að Evrópusambandið haldi virkilega að Ísland sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að það vilji ganga í Evrópusambandið en eins og við vitum er það ekki svo. Ísland er að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að uppfylla draum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að komast í ríkisstjórn. Það gerðist árið 2009. Og við vitum nákvæmlega hvernig sú atkvæðagreiðsla fór fram.

Þótt IPA-styrkirnir hafi hentað Austur-Evrópuríkjum sem gengu í Evrópusambandið á árunum 2004 og 2007 er ekki unnt að vísa til aðstöðu þar og nota sem fordæmi hér á landi. Efnahagsaðstæður í ríkjum Austur-Evrópu voru allt aðrar en hér, stjórnsýsla var víða í molum og innviðir þjóðfélaganna voru að hruni komnir eftir margra áratuga ofstjórn kommúnista. Í þessum löndum ríkti jafnframt víðtæk samstaða um aðild að Evrópusambandinu öfugt við það sem hér gerist. Þessar þjóðir vildu ganga í Evrópusambandið. Þær voru mjög áfjáðar í að komast í samband Vestur-Evrópuríkja bæði á vettvangi Evrópusambandsins og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins vegna þess að þeim var það nauðsynlegt til að komast upp úr þeim ömurlegu hjólförum sem áratuga kommúnismi hafði gert þessum ríkjum. Ég skil vel af hverju þau ríki sóttust eftir að fá aðstoð frá Evrópusambandinu til að flýta inngöngu og ég skil líka vel að Evrópusambandið vildi veita þeim aðstoð til þess að þau yrðu tilbúin til að verða fullgildir aðilar að Evrópusambandinu og uppfylltu þau skilyrði sem Evrópusambandið setur. En við vitum að hér er ekkert að í grundvallaratriðum, það er ekkert að hér í stofnanauppbyggingu nema það sem fett hefur verið fingur út í í sambandi við greiðsluúthlutun í landbúnaði, hér er samfélagið á flestan hátt á sama stað og önnur ríki í Evrópu, hvort sem þau eru í Evrópusambandinu eða ekki. En punkturinn er þessi: Við eigum að fá að ráða því sjálf hvernig þróun okkar samfélags verður, við eigum ekki að fara í einhverjar breytingar vegna utanaðkomandi þrýstings.

Í Austur-Evrópu var aðstaðan allt önnur. Hér á landi er staðan sú að annar stjórnarflokkurinn segist ætla að berjast gegn aðild þótt samningar takist um hana. Ég hef aldrei skilið hvers vegna Evrópusambandið sest ekki niður með ríkisstjórninni og segir: Vitið þið hvað, áður en þið eruð búin að koma ykkur saman um þetta þá er best að við leggjum þetta til hliðar. Ætlar hæstv. ríkisstjórn, ætlar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sem gerði það eitt af sínum fyrstu verkum að fara til Brussel og ræða sjávarútvegsmálin, virkilega að samþykkja samning sem hann mun svo beita sér gegn? Hvernig skyldi hann hafa svarað þeirri spurningu eða útskýrt það fyrir sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins? Ætli hann hafi sagt: Fínt, við skulum opna sjávarútvegskaflann, ég legg til að það verði gert strax? — Ég geri ráð fyrir að hann hafi sagt það vegna þess að hann hefur sagt það hér á þingi. — Við skulum opna kaflann, við skulum ljúka samningum en bara svo þið vitið það, sama hvaða samningur kemur, ég ætla að berjast gegn honum vegna þess að ég hef sagt, alla vega til heimabrúks heima, að það ætli ég að gera. — Ég vona svo sannarlega að sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins hafi sagt honum að þetta séu í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð.

Á sama tíma og Vinstri grænir segjast vera á móti aðild ætla þeir að berjast fyrir því að þessir IPA-styrkir verði samþykktir. Að þessi flokkur skuli standa að því að sækja um aðlögunar- og aðildarstyrki til ESB sýnir að mínu mati gagnrýniverða tvöfeldni.

Samningur íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins var eins og komið hefur fram í umræðunni undirritaður 8. júlí í fyrra, fyrir nærri því ári, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þeirrar spurningar hefur ítrekað verið spurt: Af hverju kom samningurinn, þingsályktunartillagan og frumvarpið, sem er enn í 2. umr., ekki inn sem fyrsta mál á dagskrá í október 2011? Af hverju var þetta ekki rætt í tengslum við fjárlagavinnuna síðasta haust þar sem það liggur fyrir að 596 millj. kr. voru skuldbundnar í fjárlögunum til þessara verkefna án samþykkis Alþingis, allt með fyrirvara um samþykki Alþingis? Hæstv. utanríkisráðherra sagði að það hlyti að stafa af því að málið hafi tafist í fjármálaráðuneytinu. Það kom ekki fram fyrr en 24. janúar. Var hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon að tefja málið? Nú spyr ég hv. formann utanríkismálanefndar: Getur verið að málið hafi ekki komist úr fjármálaráðuneytinu fyrr en hæstv. ráðherra Oddný Harðardóttir tók við stjórnartaumum þar? Ég vil fá svar við þeirri spurningu, ekki bara með því að hv. þingmaður hristi hausinn heldur í ræðustól og hann komi fram á rök og hann leiti þá svara af hverju þetta tafðist.

Síðan vil ég líka spyrja hvort búið sé að greiða einhverja fjármuni út. Er búið að greiða eitthvað af þessum 596 millj. á fjárlögum 2012, þessa árs? Er búið að greiða þá styrki út, eitthvað af þeim? Ég vil fá að vita það. (ÁÞS: Ég var búinn að svara því.) Ég hef ekki fengið svar við því. (ÁÞS: Ég svaraði í andsvari.)

Annar minni hluti telur eðlilegt að frumvarpið og þingsályktunartillagan hefðu komið fram samhliða fjárlagafrumvarpinu. Með því að vinna fjárlögin fyrst og láta samþykkt um IPA-styrkina bíða má segja að við þingmenn séum settir í þá stöðu að standa frammi fyrir orðnum hlut. Það er búið að ákveða að fara í tiltekin verkefni og synji þingheimur ríkisstjórninni um samþykki samningsins falla IPA-styrkirnir niður og kostnaður af verkefnunum fellur þá væntanlega á skattgreiðendur eins og hæstv. utanríkisráðherra staðfesti við fyrri umr. og 2. minni hluti átelur þessi vinnubrögð harðlega. Mér finnst þetta sýna mikla vanvirðingu við hv. Alþingi og við skattgreiðendur landsins vegna þess að þetta eru engir smáfjármunir. Þetta eru fjármunir sem mætti nota til margra góðra verka, t.d. að tryggja heilbrigðisþjónustu úti um allt land og hefta niðurskurð í viðkvæmum málum.

Frú forseti. Í hnotskurn eru IPA-styrkir óeðlileg fjárinnspýting til aðlögunar vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þær viðræður eru mjög umdeildar og njóta lítils stuðnings hjá þjóðinni og því leggst 2. minni hluti gegn samþykkt tillögunnar.

Undir nefndarálitið skrifa eins og fyrr segir Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.

Ég vona, frú forseti, að við fáum svör við þeim spurningum sem við höfum kallað eftir, bæði við upphaf þessarar umræðu og einnig við umræðu um frumvarpið. Og ég vona svo sannarlega að hv. nefndarmenn í utanríkismálanefnd sem eru hér staddir, bæði hv. formaður nefndarinnar og hv. þm. Mörður Árnason, sýni þessu máli áfram virðingu og fylgist með umræðunni og svari þeim spurningum sem til þeirra verður beint í þessari umræðu vegna þess að það er alveg ljóst að þetta mál liggur ekki beint fyrir. Það væri líka skemmtilegt að velta því fyrir sér hvort hæstv. ríkisstjórn sé yfirleitt með meiri hluta fyrir þessu máli, það á eftir að koma í ljós í atkvæðagreiðslu, en miðað við hvernig málið fer af stað og hefur verið í umræðunni tel ég ákveðnar líkur á að það verði mjótt á munum í atkvæðagreiðslu um þetta mál.