140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eitt af þeim verkefnum sem hér er um að ræða er Kötlujarðvangur, merkilegt verkefni á Suðurlandi. Það er merkilegt fyrir margra hluta sakir, auðvitað fyrir fólk í héraðinu vegna þess að það eflir þar atvinnu og skapar tækifæri fyrir margs konar frumkvæði en líka merkilegt vegna þess að þetta er dæmi um græna atvinnustarfsemi, þetta er dæmi um það sem gæti átt eftir að verða miklu frekara í framtíðinni í atvinnulífi okkar og taka með vissum hætti við af þeim áherslum sem fyrritíðarmenn, og reyndar nokkrir fyrritíðarmenn hér á þinginu, hafa haft yfirgnæfandi í því að nýta náttúruna með því að fórna umhverfisverðmætum en ekki með því að byggja þau upp.

Nú kemur fram í afstöðu hv. þingmanns sem talaði áðan andstaða við þetta verkefni meðal annars og öll þau sem eiga að hljóta þessa IPA-styrki. Mig langar að spyrja hvort sú andstaða byggist á því að verkefnið fær IPA-styrkina eða hvort andstaðan er pólitísk og snýst gegn því að svona fyrirtæki skyggi á aðra möguleika sem þingmanninum eru kærari til uppbyggingar í sínu kjördæmi og á Íslandi. Þetta er fróðlegt vegna þess að það væri þá eðlilegt að þingmaðurinn hefði aðrar pólitískar áherslur en sú stofnun innan Evrópusambandsins sem telur þetta vera ákaflega verðugt atvinnuþróunarverkefni á Suðurlandi.