140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að upplýsingar eru vitanlega ekki af því vonda, þær eru yfirleitt af því góða ef þær eru settar fram með sanngjörnum og réttmætum hætti og eru til að upplýsa um hlutina eins og þeir eru. Á heimasíðu Evrópustofu, með leyfi forseta, er þessi texti um starfsemina:

„Ýmsar flökkusögur eru sagðar um ESB en fæstar þeirra eiga sér stoð í veruleikanum. Hafa skal það sem sannara reynist og Evrópustofu er einmitt ætlað að miðla staðreyndum.“

Skyldi Evrópustofa miðla þeirri staðreynd að lýðræðishalli er talinn hafa aukist innan Evrópusambandsins? Skyldi Evrópustofa miðla þeim upplýsingum að áhrif einstakra ríkja fara þverrandi innan Evrópusambandsins vegna ofríkis Þjóðverja og Frakka fram að þessu? Ég velti fyrir mér hvort Evrópustofa miðli þeirri staðreynd að vextir innan Evrópusambandsins eru mismunandi eftir löndum. Það skiptir máli, frú forseti, að (Forseti hringir.) upplýsingar séu settar fram með réttum hætti en ekki túlkaðar sem flökkusögur ef þær eru ekki í þeim anda sem Evrópustofa vill.