140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé algilt að ríkisstjórnir geri alþjóðasamninga með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þessi samningur var gerður 8. júlí, eins og fram hefur komið, en þá hefði líka átt að koma með þennan samning við upphaf þings og það er ekkert sem ég sé því til fyrirstöðu að það hefði ekki mátt vera með fyrstu málum á þinginu. Það var ekki eftir neinu að bíða.

Skýringar hæstv. utanríkisráðherra á því að frumvarpið hafi tafist í fjármálaráðuneytinu eru bara kjaftæði. Við erum alltaf að samþykkja afléttingu stjórnskipulagsfyrirvara um ýmis EES-mál en svo koma frumvörpin og það er aflétting á stjórnskipulegum fyrirvara og liggur ljóst fyrir að gera þurfi breytingar á íslenskum lögum. Það er alsiða og alkunna að frumvörpin koma ekkert endilega fram jafnhliða. Frumvörpin geta komið fram miklu seinna enda þarf að afla heimildar til að breyta lögum.

Þessi þingsályktunartillaga hefði því getað komið strax inn í þingið í október, ekkert var því til fyrirstöðu, og í framhaldi af því hefði hæstv. fjármálaráðherra getað komið með sitt frumvarp. En það sem gerðist hér var það að samningurinn var samþykktur, fjárlögin voru samþykkt með 596 millj. kr. fjárveitingu. Þann 24. janúar þegar fjárlögin eru gengin í gildi þá fyrst kemur þingsályktunartillagan og frumvarpið. Þetta eru mjög vond vinnubrögð.

Síðan er það eitt sem ég náði ekki að fara yfir í ræðu minni að upplýst hefur verið í hinu frumvarpinu að fjármunum hafi áður verið veitt í tengslum við fjáraukalög og það er eitthvað sem við verðum að skoða.