140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef gagnrýnt verklag og vinnubrögð þegar þetta mál var tekið út úr nefndinni.

Jafnvel þó að um sé að ræða annað mál á dagskrá, eins og hv. þingmaður greindi frá áðan, er það alsiða að bíða með afgreiðslu þeirra í nefndum þegar fyrir liggur að menn hafa ekki boðað forföll og munu því mæta. Þegar nefndin er ekki fullskipuð en vitað er að fleiri eiga eftir að bætast við er það alsiða, og telst merki um góða samvinnu á þinginu, að beðið er með að taka mál út úr nefnd þar til nefndin er fullskipuð.

Í þessu tilviki lá svo mikið á að tveimur fulltrúum stjórnarmeirihlutans sem voru fjarverandi hafði verið skipt út fyrir tvo varamenn sem eru reyndar ekki varamenn í utanríkismálanefnd heldur varamenn í öðrum nefndum og þremur mínútum eftir að fundur hófst var búið að afgreiða þetta mál út (Forseti hringir.) við mótmæli okkar í stjórnarandstöðunni. Síðan er athyglisvert að sjá að tveir hv. þingmenn, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og (Forseti hringir.) Bjarni Benediktsson, eru sagðir fjarverandi við afgreiðslu málsins, þau komu held ég 10 mínútum of seint á fundinn.