140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisverð spurning og eðlilegt að hv. þingmaður spyrji hennar. Það kemur fram í 1. lið 10. gr. þessa samnings að það sé svo mikilvægt að varpa ljósi á hlutverk Evrópusambandsins. Ég ætla bara að endurtaka það sem ég sagði áðan, Evrópustofa sem sett er á fót með fjármunum úr IPA-kerfinu öllu saman virðist hafa það hlutverk að draga upp „rétta mynd“ af Evrópusambandinu. Það kemur fram á heimasíðu stofunnar að ýmsar flökkusögur séu í gangi sem þurfi að eyða. Evrópusambandið gerir kröfu um að það sé vel greint frá því hvert fjármunir þess fari. Það er algjörlega í samræmi við það að Evrópusambandinu datt í hug að gera kröfu um að á íþróttabúningum þjóðríkja innan Evrópusambandsins yrði settur Evrópufáninn þannig að það villtist ekkert um fyrir mönnum hvaðan þessir íþróttamenn væru. Sem betur fer komu menn í veg fyrir það.

Evrópusambandið hagar sér oft og tíðum eins og þjóðríki. (Forseti hringir.) Fáni þess hangir uppi allan sólarhringinn við allar opinberar byggingar, það er á öllum sköpuðum hlutum sem það kemur þessum fána á.