140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kannast ekki við að hafa lagt stein í götu jarðvangsins og skil ekki alveg hvað þingmaðurinn á við. En ég hvet Sunnlendinga og hvern þann sem hefur metnað fyrir því að vinna að göfugum verkefnum til að styðja bæði byggðaþróun og atvinnuþróun í hinum dreifðu byggðum landsins, sérstaklega á hinum viðkvæmu svæðum í Skaftárhreppi, að leggja fram erindi á Alþingi og óska eftir stuðningi þess í gegnum fjárlögin.

Ég skora á hv. þingmann, sem hefur greinilega mikinn áhuga á málum í Skaftárhreppi, Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi, að einbeita sér nú að því að hvetja ríkisstjórnina áfram í því að styðja við þær veiku byggðir sem um er rætt vegna þess að það er fólksfækkun á þessum slóðum og ekki veitir af liðsinni góðra þingmanna úr öðrum kjördæmum. Ég fagna því sérstaklega að (Forseti hringir.) hv. þm. Mörður Árnason sé nú kominn með okkur í baráttuna. (Gripið fram í.)