140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið sé að breytast hægt og bítandi í stórt ríki. (Gripið fram í.) Það breytist mjög hratt og óvenjuhratt. Atburðir í Grikklandi hafa t.d. valdið því að Evrópusambandið ætlar að hafa áhrif á fjárlög hvers einstaks ríkis. Það byrjaði á Spáni. Fjármálastefnan er orðin sameiginleg. Þá er lítið eftir af sjálfstæði einstakra ríkja þegar þau mega ekki gera samninga við önnur ríki, þau hafa ekki sjálfstæðan fjárhag, þau hafa sameiginlega mynt og samræmd lög, þá minnir ansi margt á stórt ríki.

Ég talaði um það þegar þessi fræga umsókn um aðild að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi, með þeim ósköpum sem ræða hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur sýnir, að Evrópusambandið væri að þróast í átt til ríkis. Ég hélt að það gerðist hægar. Ég hélt að það tæki svona 30, 40 ár en það gengur miklu hraðar en ég átti von á. Sérhver kreppa á hvaða sviði sem er, hvort sem hún tengist glæpastarfsemi, efnahagshruni eða einhverju slíku, kallar á samræmdar aðgerðir og Evrópusambandið mun þróast hraðar og hraðar í átt til ríkis. Við erum ekki að sækja um aðild að bandalagi óháðra ríkja, við erum að sækja um aðild að Bandaríki Evrópu. Menn þurfa að hafa það í huga og þá skulu menn velta fyrir sér hver staða Íslands verður á jaðrinum á risastóru bandaríki og hvaða athygli málefni Íslands fá á aðalskrifstofum þess stóra ríkis. Ég fullyrði: Enga.