140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er með tvær spurningar til hv. þingmanns: Hver eru helstu markmið ESB með því að gera þennan rammasamning við ríkisstjórn Íslands? Hvers vegna leggur Evrópusambandið svo mikla áherslu á að tryggja beri viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB samkvæmt þessum samningi? Fjallað er um það í e-lið 1. töluliðar 5. gr. samningsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB.“

Jafnframt heitir 10. gr. „Kynning og sýnileiki“ og þar er nánar farið ofan í það og ítrekað enn frekar að það komi fram og að upplýsingum skuli beint til borgaranna og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB.

Tvær spurningar: Hver eru helstu markmið ESB með að gera þennan samning við Ísland? Hvers vegna leggur ESB svona mikla áherslu á að styrkur ESB sé sýnilegur?