140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka afar góðar spurningar, sérstaklega þá síðustu. Ég var hreinlega búin að gleyma þessari hótun forsætisráðherra að þegar forseti boðaði til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ætlaði hún að sitja heima á kjördag. Þvílíkt og annað eins.

Hæstv. forsætisráðherra er búin að sitja tæp 35 ár á þingi og hefur átt kjör sitt undir því að fólk mæti á kjörstað og kjósi hana í alþingiskosningum. En nei, hæstv. forsætisráðherra gekk fram og sagðist ætla að sitja heima á kjördag. Þetta sýnir lýðskrumið sem þessi manneskja stendur fyrir, hæstv. forsætisráðherra. Lýðskrum, lýðskrum, lýðskrum. Hún ber ekki lýðræðisást í brjósti gagnvart landsmönnum vegna þess að hún vill handvelja hvað fær að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Auðvitað sjá allir í gegnum þetta.

Um þau orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í dag að tillaga mín væri laumufarþegi inn í málið er það eitt að segja að svona afgreiðir hv. þm. Álfheiður Ingadóttir málin. Ef það er eitthvað óþægilegt eru bara fundin ný orð á það. Ef hún skammar ekki þingmenn eða bannar þeim að leggja fram breytingartillögur eins og hún hefur til dæmis gert við mig er bara fundið eitthvert nafn á það í þingsal, laumufarþegi. Hún notar líka þetta orð á breytingartillögu mína um rannsókn á bönkunum þar sem ég legg til að nýja einkavæðingin verði rannsökuð um leið og sú gamla. Hún telur að það séu algjörlega óskyld mál og að ég sem þingmaður sé að koma með laumufarþega inn í hennar góðu þingsályktunartillögu sem meira og minna öll ríkisstjórnin stendur að til að ná sér niðri á fyrrverandi stjórnvöldum. Þetta eru vinnubrögðin hérna. Þetta er þroskinn hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur.

Um fyrstu spurningu hv. þingmanns, um að skrifað hafi verið undir samninginn 8. júlí 2011, er það eitt að segja að auðvitað er þetta ekkert annað en feluleikur Vinstri grænna. Því skal haldið til haga að einn hv. þingmaður, Jón Bjarnason, stóð alltaf í lappirnar gagnvart þessu, (Forseti hringir.) barðist á móti og var ljár í þúfu ríkisstjórnarinnar. Það endaði að sjálfsögðu þannig að honum var bolað út úr ríkisstjórn (Forseti hringir.) af því að hann stóð vörð um þjóðarhagsmuni.