140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:03]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa ásökunum algjörlega á bug um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi verið að draga lappirnar í þeirri vinnu sem ráðuneytinu bar að vinna samkvæmt ákvörðun Alþingis enda hefur mér vitanlega enginn kvartað vegna hinnar formlegu vinnu ráðuneytisins sem unnin var bæði hratt og vel undir miklu álagi og var ekki verið að auka svo mikið við mannskap. Það er því fullkomlega rangt að ég hafi dregið lappirnar við þá vinnu.

Hitt er alveg rétt að ég krafðist skýringa á óljósum atriðum og kröfum Evrópusambandsins vegna þess að það lá fyrir að við vorum ekki að sækja um aðild, að minnsta kosti ekki Vinstri grænir, endilega til að komast inn. Ég spurði líka til að fá fram skýr svör. Ætli mönnum finnist núna ekki betri sú krafa sem kom fyrst frá mér sem ráðherra að ekki væri hafin neins konar aðlögun að Evrópusambandinu meðan á viðræðum stæði? Það var krafan sem ég las upp áðan og ég setti fyrir framhaldi viðræðna um bæði sjávarútveg og landbúnað, þ.e. að við færum ekki í aðlögun.

Það má vel vera að það hafi síðan tafið viðræðurnar að hafa sett fram þá kröfu. Ég held að það hafi verið eðlilegt af allra hálfu að gera slíka kröfu enda hafa aðrir gert þá kröfu mína að sinni þó að kannski hafi verið farið misvel eftir henni og sumir fóru illa eftir henni. (Forseti hringir.) Ég krafðist þess og sagðist ekki mundu (Forseti hringir.) fara í aðlögunarvinnu að Evrópusambandinu með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál meðan ég væri ráðherra.