140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í síðasta andsvari og í ræðu sinni að það væru mikil tímamót fram undan í Evrópusambandsumsókninni, að ekkert væri fram undan nema aðlögun í málinu.

Nú greiddum við atkvæði hér í dag um það hvort þjóðin eigi að fá að koma að þessu máli áður en aðlögun hefst. Það vakti satt best að segja undrun margra þegar ráðherrar og einstakir þingmenn sem talað höfðu fyrir því jafnvel bara á síðustu vikum að þjóðin ætti að fá að koma að þessu máli, eins og hæstv. umhverfisráðherra gerði hér í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir viku síðan. Hæstv. umhverfisráðherra sagði síðan nei við þeirri tillögu að leyfa þjóðinni að koma að málinu áður en aðlögun hefst.

Við munum öll hvernig málum var háttað í sal Alþingis á sínum tíma þegar atkvæðagreiðslan fór fram um hvort sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu. Hæstv. forsætisráðherra sat hér í hliðarherbergi og kallaði stjórnarliða hvern á fætur öðrum inn í hliðarherbergi, SMS-sendingar áttu sér stað hér í þingsal o.s.frv. Þetta er það sem ég mundi flokka undir ákveðna tegund af hótunum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji í fyrsta lagi trúlegt að eitthvað slíkt hafi verið á döfinni í atkvæðagreiðslunni í dag.

Í annan stað, á sínum tíma þegar hv. þingmaður var hæstv. ráðherra og þessi atkvæðagreiðsla fór fram hafði ekki nokkur ráðherra greitt atkvæði gegn ríkisstjórnarmáli síðan 1970, það er eftirtektarvert. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi í tengslum við þá atkvæðagreiðslu fundið fyrir einhverjum hótunum, beinum eða óbeinum, frá hæstv. forsætisráðherra sambærilegum þeim sem aðrir (Forseti hringir.) þingmenn urðu fyrir. Þetta eru sem sagt tvær laufléttar (Forseti hringir.) spurningar.