140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:10]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hefði verið fróðlegt varðandi IPA-styrkina að vita hvort allir þeir sem þá greiddu atkvæði með umsókninni en sögðust vera á móti aðild hefðu gert það ef þessir milljarðar kr. í aðlögunarfé af hálfu Evrópusambandsins hefðu þá strax verið lagðir inn. Ég ætla ekki að dæma um það.

Að öðru leyti minni ég á varðandi þessa umsókn að þegar ríkisstjórnin var mynduð var það nú þannig á milli stjórnarflokkanna að málinu var varpað inn til Alþingis en hver og einn þingmaður var ekki bundinn af ríkisstjórnar- eða flokksaga með formlegum hætti hvað það varðaði. Hvað mig varðar var öllum það alveg ljóst innan þingflokks VG og við ríkisstjórnarmyndunina og eins í ríkisstjórn að ég var andvígur því að sótt væri um aðild að Evrópusambandinu, það lá alltaf fyrir. Ég taldi líka rétt að spyrja þjóðina um það áður en farið væri út í slíka vegferð, sem er náttúrlega ekkert nema fullveldisframsal að stórum hluta.

Varðandi stöðuna í dag verður líka að muna að ekki var kosið um umsókn að Evrópusambandinu við síðustu alþingiskosningar. Það var fyrst og fremst verið að kjósa um ákveðið uppgjör við efnahagshrun síðustu ára og hvernig menn ætluðu að takast á við uppbyggingu og endurreisn (Forseti hringir.) landsins en ekki um Evrópusambandsaðild. Að mínu mati fór Alþingi því mjög aftan að kjósendum með því (Forseti hringir.) senda aðildarumsókn að Evrópusambandinu, sem er jú eitt stærsta mál sem þingið hefur tekið ákvörðun um.