140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst frekar óþægilegt að vera með einhverjar getsakir í þessum efnum og ég vil út af fyrir sig ekki segja að þetta hafi verið hluti af einhverju plotti. Ég held að það hafi bara blasað við öllum sem fylgdust með umræðunum við Evrópusambandið í hvað stefndi. Hluti af því var að breyta stjórnsýslunni okkar. Við hv. þm. Jón Bjarnason höfum verið að ræða það að til dæmis er gerð grein fyrir því, og við gerðum okkur auðvitað öll grein fyrir því, að með aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, ég tala nú ekki um að ef af slíkri aðild yrði, yrði að gera grundvallarbreytingar á stofnanaumhverfi landbúnaðarins. Jafnvel þótt menn hefðu viljað reyna að blekkja einhvern í þessum efnum blasti þetta bara við.

Það sem vekur hins vegar með manni spurningar er hvers vegna skrifað var undir þennan samning 8. júlí í fyrra og síðan er málið ekki komið lengra en raun ber vitni. Það getur vel verið að það hafi verið vegna einhverrar pólitískrar andstöðu í stjórnarflokkunum, ég veit ekkert um það, en það hefði auðvitað verið miklu heppilegra að málið (Forseti hringir.) hefði komið fyrr fram þannig að menn hefðu getað rætt það fyrr.