140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man vel að það voru greidd sérstaklega atkvæði um það og það vakti auðvitað athygli hverjir greiddu atkvæði með því þegar fjárlögin voru afgreidd rétt fyrir jólin. Þá var tekin afstaða til greiðslu þessara styrkja, í prinsippinu getum við sagt, og síðan var þá gert ráð fyrir því að bæði kæmi fram þingsályktunartillaga og lagabreyting.

Við megum ekki gleyma því að forsendan fyrir þessum styrkjum er skattfrelsið. Ef þetta skattfrelsi er ekki veitt verða engir styrkir veittir. Í raun og veru er íslenskum stjórnvöldum þannig stillt upp við vegg og sagt sem svo: Ef þið sjáið ekki um að breyta lögunum og fá heimild til að þessir styrkir verði veittir án skattgreiðslna verða engir styrkir veittir. Það er í rauninni það sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir og í sjálfu sér má kannski færa fyrir því rök, eins og ég nefndi áðan, að í því felist á vissan hátt óbeinn ríkisstuðningur Íslendinga við þetta styrkjakerfi Evrópusambandsins (Forseti hringir.) þar sem við erum að gefa eftir skatttekjur sem ella hefðu farið í vasa ríkissjóðs.