140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Afnám gjaldeyrishaftanna er eitt af stóru mikilvægu verkefnunum sem við þurfum að sinna á þessu ári og mögulega næstu árum jafnframt. Það hefur legið fyrir allt frá því að gjaldeyrishöftin voru sett að þau valda gríðarlega miklum skaða á Íslandi og ég hygg að það sé stefna allra flokka að reyna að losa um þau sem allra fyrst. Fylgt hefur verið ákveðinni stefnu sem unnin hefur verið í samráði við Seðlabankann og í samstarfi við hann en undanfarna daga hafa borist fregnir af því að nú hafi jafnframt verið leitað aðstoðar Evrópusambandsins og eftir atvikum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og mig langar til að bera það upp við hæstv. forsætisráðherra hvað sé í raun og veru á seyði. Mér finnst mikilvægt að þinginu sé gerð grein fyrir því um hvað er að ræða. Hefur verið horfið frá fyrri áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna? Er verið að reyna að styrkja það ferli? Í hverju felst samkomulag við Evrópusambandið eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Hverjir hafa gert samning og um hvað er sá samningur? Þetta eru atriði sem mér finnst nauðsynlegt að þingið sé vel upplýst um, enda getur í sjálfu sér ekki verið um að ræða atriði sem eiga að fara leynt undir nokkrum kringumstæðum.

Mig langar jafnframt til að biðja forsætisráðherra um að deila því með okkur hér á þinginu hvort hún telji að með þessu samkomulagi, ef eitthvert samkomulag hefur verið gert, hafi aukist líkur á því að við getum flýtt afnámi haftanna. Það er það sem við þurfum nauðsynlega að gera. Það er það sem atvinnulífið og almenningur á Íslandi kallar eftir að geti gerst til þess að hér komist aftur á eðlilegt ástand í gjaldeyrismálum.