140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um það og full ástæða er til að taka undir það að afnám gjaldeyrishaftanna og framtíðarskipan gjaldeyrismála eru meðal brýnustu hagsmunamála þjóðarinnar og ekki óeðlilegt að hv. þingmaður beri upp þessa spurningu.

Eins og hv. þingmaður nefndi vinnur ríkisstjórnin eftir skýrri áætlun um afnám haftanna og hefur verið unnið á grundvelli þess til dæmis um afnám snjóhengjunnar svokölluðu á undanförnum missirum, og gerðar ýmsar breytingar að því er varðar þá áætlun sem við unnum eftir frá upphafi varðandi gjaldeyrishöftin til að auðvelda stjórn útflæðis arðs og útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna o.s.frv.

Hv. þingmaður spyr um samstarf við ESB að því er varðar gjaldeyrishöftin. Ég man ekki betur en komið hafi verið inn á þetta í skýrslu utanríkisráðherra um daginn og það sem verið er að gera núna er að skoða fleti á því í samstarfi við Evrópusambandið og leiðir til að vinna sameiginlega að afnámi haftanna. Í samningaferli um aðild að ESB felst að mínu mati gríðarlegt tækifæri fyrir Ísland í þessu mesta hagsmunamáli Íslendinga, en ég tel að það hljóti að vera jákvætt og fagnaðarefni ef allar leiðir eru skoðaðar í því efni hvernig við getum flýtt afnámi haftanna og líka sú leið sem hv. þingmaður nefnir að skoða það í samráði við ESB hvaða leiðir eru færar með þeim og íslenskum stjórnvöldum til að flýta afnámi haftanna.