140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

skýrsla um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

[10:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Að beiðni Alþingis hefur verið unnin skýrsla um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun sem dreift hefur verið í þinginu. Í kjölfar þeirrar skýrslu hafa þeir þingmenn sem óskuðu eftir skýrslunni lagt fram tillögu til þingsályktunar þar sem óskað er eftir að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða málefni barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun með því að bregðast við þeim ábendingum og tillögum sem birtast okkur í þessari skýrslu. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra með hvaða hætti ráðuneytið hefur hugsað sér að bregðast við skýrslunni.

Það kemur fram í skýrslunni að í verstu tilvikum sé einstaklingur með talerfiðleika óskiljanlegur ókunnugum en léttvægari tilvik lýsa sér í því að eiga erfitt með að bera fram einstök hljóð. Með málþroskaröskun er átt við erfiðleika við málskilning og máltjáningu, að orðaforði sé fátæklegur, málfræðiþekking slök og setningamyndun einfölduð.

Erlendis er víða gert ráð fyrir því að um 15% leikskólabarna og um 10% grunnskólabarna þurfi aðstoð vegna þessara örðugleika. Á Íslandi eru engar tölulegar upplýsingar til um fjölda barna sem hafa verið greind með þessa örðugleika og engin sérstök stofnun heldur utan um þennan hóp. Verkefnið er dreift milli tveggja ráðuneyta, þ.e. velferðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis, og jafnframt er hluti af þessum verkefnum hjá sveitarfélögunum þannig að ábyrgðin er dreifð og utanumhaldið ekkert og yfirsýnin því léleg. Af þessu höfum við sem flytjum þessa þingsályktunartillögu áhyggjur og teljum að bregðast þurfi við. Kerfið annar ekki eftirspurn, það eru langir biðlistar eftir því að komast til sjálfstætt starfandi sérfræðinga (Forseti hringir.) til að fá aðstoð. Hvað hefur ráðuneytið íhugað að gera til að bregðast við þessari stöðu?