140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

skýrsla um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

[10:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fyrst vil ég þakka bæði hv. fyrirspyrjanda en líka öðrum þeim hv. þingmönnum sem lögðu fram téða skýrslubeiðni. Það er mjög gott að vakin hafi verið athygli á málefnum þessara barna og gott að þessi skýrsla var unnin. Það sem þegar hefur verið gert í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er að fara yfir skýrsluna og eins og hv. þingmaður bendir á er þarna víða pottur brotinn og málefnin varða marga aðila.

Það sem má sjá líka er að það skortir greinilega fjármagn inn í þennan málaflokk til að staðið sé að þessari þjónustu með viðunandi hætti. Það sem þegar hefur verið gert er að fara yfir skýrsluna og fara yfir hvaða atriði helst standa upp úr og ljóst er að í framhaldinu þarf að efna til samráðs við velferðarráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga því að mjög margt af því sem þarna kemur upp tengist annars vegar heilbrigðisþjónustunni og hins vegar skólakerfinu og það er auðvitað að hluta til rekið af sveitarfélögum. Það er ljóst að þetta kallar hugsanlega á einhverjar reglugerðarbreytingar um sérfræðiþjónustu, svo dæmi sé tekið, sem kynnu að útheimta meira fjármagn inn í þennan málaflokk þannig að það sem stendur til að gera er að móta áætlun um þær aðgerðir sem unnt er að ráðast í og gera kostnaðargreiningu á þeim aðgerðum. Til að unnt sé að gera þetta þarf að kalla til samráðs þeirra aðila sem hér hafa verið nefndir. Til stendur að byrja á þessu, vonandi sem fyrst. Ég veit ekki hvort þingsályktunartillagan sem hv. þingmaður nefndi nær að komast á dagskrá hér en það er engin ástæða til að bíða með að byrja á að móta einhverja aðgerðaáætlun í þessum málum.