140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forsendur fjárfestingaráætlunar 2013--2015.

[10:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nýlega var kynnt nýtt kosningaplagg ríkisstjórnarinnar sem kallað hefur verið fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015. Önnur meginforsenda þessa plaggs er sú að verja eigi tilteknum fjármunum úr auðlindagjaldi, sem ætlunin er að hækka eins og allir vita, og verja þeim peningum til fjárfestingarverkefna. Í þessu plaggi kemur fram að gert er ráð fyrir því að þetta auðlindagjald muni á næstu þremur árum nema um 50 milljörðum kr. og þegar þetta mál er betur skoðað blasir við að forsendan fyrir því að þessi tala er fundin er sú að svipaðar aðstæður verði uppi í sjávarútveginum, m.a. hvað varðar gengisþróunina og gengisstöðuna. Það er sem sagt gert ráð fyrir því í þessu plaggi að gengi íslensku krónunnar haldist álíka lágt og það er í dag.

Nú er það svo að í því frumvarpi sem fyrir liggur um veiðigjaldið er gengið út frá því og það er beinlínis sagt að þetta gjald sé mjög næmt fyrir breytingum í starfsumhverfi sjávarútvegsins og í áliti sem Alþýðusamband Íslands hefur unnið kemur það meðal annars fram að ef gengi krónunnar styrkist þó ekki væri nema um 20% yrði veiðigjaldið á ári í kringum 8 milljarðar kr. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er þá gengið út frá því í þeirri fjárfestingaráætlun sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt að við munum á næstu þremur árum, 2013, 2014 og 2015, búa við gengi sem er svipað og það er í dag? Er ríkisstjórnin að boða það, að það sé hluti af stjórnarstefnunni, forsenda fjárfestingaráætlunarinnar, að hér verði lágt gengi, a.m.k. um fyrirsjáanlega framtíð?