140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forsendur fjárfestingaráætlunar 2013--2015.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Vissulega er það svo að tekjur í sjávarútvegi eru verulega háðar gengisþróuninni. En ég vænti þess líka að hv. þingmaður hafi farið yfir þessa fjárfestingaráætlun og tekið eftir því að þar er farið mjög varfærið í hlutina að því er varðar ráðstöfun bæði veiðigjaldsins og arðsins. Það er áætlað að veiðigjaldið gefi á næstu þremur árum 40–50 milljarða kr. og 17 milljarðar af því fari í fjárfestingaráætlunina, þar á meðal til bættra samgöngubóta. Það er því verulegt borð fyrir báru og gert ráð fyrir því, ekki síst, að hægt sé að greiða niður skuldir, m.a. með arði af bönkunum og veiðigjaldinu, og nýta þetta þá til annarra þarfa þannig að það er mjög varlega farið í hlutina. Hér er til dæmis ekki gert ráð fyrir meiri afla sem menn búast við að sé inni í myndinni í þessu. Þannig að í alla staði er farið mjög varlega í þetta og alltaf er það undirliggjandi í þessari áætlun að það gangi eftir að veiðigjöldin skili sér og arðurinn í bönkunum. Það er undirstaðan undir þetta. Ég held að það hljóti líka að skipta máli fyrir þessa þróun hvað við getum bætt hagvöxtinn með þessari fjárfestingaráætlun og dregið úr atvinnuleysi en á sama tíma farið mjög varlega í að nýta veiðigjaldið í þessi verkefni.