140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forsendur fjárfestingaráætlunar 2013--2015.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður reyna að draga upp þá mynd að gera þessa fjárfestingaráætlun mjög tortryggilega og hann virðist vera mjög svartsýnn á að hún komist til framkvæmda. Við í ríkisstjórninni erum ekki svo svartsýn á að áætlunin komist ekki til framkvæmda. Við bindum vonir við að þessi áætlun …

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn að hafa einn fund í salnum og gefa forsætisráðherra hljóð.)

… standi undir þeim væntingum sem við gerum. Eins og ég sagði er þetta mjög varfærið bæði í veiðigjaldinu og í arðinum af bönkunum (Gripið fram í.) og við verðum að horfa til þess líka hvaða hagtölur eru á bak við þetta og hvernig við byggjum þetta upp þar sem við gerum ráð fyrir því til dæmis að ná fjárfestingum sem hlutfalli af landsframleiðslu upp í 19% sem hefur þó hækkað á tveimur árum um 3–4% sem er verulegt og hlýtur að vera fagnaðarefni. Við búum því miður við sveiflur í genginu en ég tel að áætlunin (Forseti hringir.) sé það varfærin að það sé alveg óhætt að treysta því að við getum framkvæmt þessa fjárfestingaráætlun.