140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um breytingartillögu.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja það að þessi ummæli frá hv. þingmanni eru ekki svaraverð (Gripið fram í: Þetta er frá Birgittu …) og honum ekki samboðið að segja þetta með þeim hætti sem hann gerði og ætla ég mér ekki að svara þeim.

Hv. þingmaður hefur alltaf tvennt í huga þegar hann kemur hingað í ræðustól. Í fyrsta lagi að leggja sitt lóð á vogarskálina til að fella (Gripið fram í: … ummæli Birgittu.) þessa ríkisstjórn jafnaðarmanna og félagshyggjufólks. Ekki veit ég hvort hann vilji að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn taki við, sjálfsagt er það það sem hann vill. Í öðru lagi vill hann koma í veg fyrir, sem er mjög sérstakt, að þjóðin sjálf fái að segja sitt álit á þeirri niðurstöðu sem verður þegar samningaviðræðum er lokið um aðildarumsóknina. Hann vill fá að ráða því sjálfur fyrir fólkið að taka þessa umsókn af dagskrá en ekki að þjóðin sjálf fái að segja síðasta orðið um það (Gripið fram í.) hver niðurstaðan verður. Það er ekki komin niðurstaða en þegar niðurstaðan kemur á þjóðin sjálf að segja sitt álit á því en ekki fara að vilja og ósk hv. þingmanns.