140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hef alltaf greitt atkvæði með því að þingfundur fengi að standa lengur til þess að gefa svigrúm í þinginu svo hægt væri að ræða mál til fullnustu, sérstaklega þegar mikið liggur við undir lok þings, og bæta við vinnutíma þingsins. Ég mun greiða þessu atkvæði að þessu sinni en ég geri það með mjög þungum huga núna vegna þess að ég skil ekki þá forgangsröðun að taka þetta mál, Vaðlaheiðargöngin, sem á að fara að troða í gegnum þingið, þröngva hér inn þvert á samgönguáætlun, þvert á alla opinbera stefnumótun um röðun mikilvægra samgönguframkvæmda, og að lengja þingfund til að geta komið þessu máli í gegn er mér mjög þungbært. En ég hef ekkert á móti því að mál séu rædd og af þeirri prinsippástæðu að það þurfi að veita meira svigrúm til að fara í gegnum mál undir lok þings (Forseti hringir.) samþykki ég aukna lengd þingfundar að þessu sinni, en áskil mér þá líka allan rétt til þess því miður að þurfa að lengja umræðuna hér því að ég mun taka þátt (Forseti hringir.) í þessari umræðu um Vaðlaheiðargöngin.