140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að árétta það sjónarmið sem kom fram hjá hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar. Nú á að fara að taka fyrir til umræðu hið umdeilda mál Vaðlaheiðargöngin og það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt að það væri gert í einhverju samhengi við það sem ætlunin er að afgreiða í þeim samgönguáætlunum og tillögum til samgönguáætlana sem liggja fyrir þinginu.

Vaðlaheiðargöngin eru auðvitað samgönguverkefni og þegar við ræðum þau mál þurfum við að geta rætt þau í eðlilegu samhengi en það vantar hins vegar mjög mikið upp á það. Það liggur fyrir tillaga til samgönguáætlunar, við vitum að unnið er að þessari samgönguáætlun í nefndinni. Lagt hefur verið fram plagg sem menn hafa kallað fjárfestingaráætlun sem gerir ráð fyrir því að gengi íslensku krónunnar haldist hér áfram mjög lágt og það eigi síðan að geta fjármagnað ný samgönguverkefni. Við vitum hins vegar ekki hver tillaga umhverfis- og samgöngunefndar verður þannig að ég tek undir með hv. formanni nefndarinnar að það er algerlega (Forseti hringir.) óhjákvæmilegt að geta rætt þessi mál í einhverju samhengi og spyr eftir því hvenær ætlunin er að taka samgönguáætlunina til umræðu.