140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:39]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birni Val Gíslasyni varð svolítið tíðrætt í ræðu sinni um hin þjóðhagslegu áhrif Vaðlaheiðarganga. Það er náttúrlega umhugsunarefni vegna þess að upphaflega kemur þessi umræða upp út frá því að það séu ekki hin þjóðhagslegu áhrif sem liggi til grundvallar þeim vilja að fara í þessi göng heldur frekar að hægt sé að fara í þau á þeirri forsendu að þau séu einkaframkvæmd.

Nú kemur í ljós í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, jafnvel þó að þingmaðurinn hafi rætt t.d. um sparnað sem hljótist af minni snjómokstri og eitthvað fleira, að neikvæð áhrif ganganna á ríkissjóð eftir að rekstur þeirra verði hafinn verði 50 millj. kr. á ári. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvernig metur þingmaðurinn þetta í samhengi við hinn þjóðhagslega ávinning (Forseti hringir.) af framkvæmdinni?

Síðan vil ég spyrja þingmanninn að lokum: Hver telur hann að eigi að vera (Forseti hringir.) næsta jarðgangaframkvæmd, verði ráðist í Vaðlaheiðargöng með þeim hætti sem hér er lagt til?