140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu er nauðsynlegt að hafa í huga að við erum að ræða um frumvarp fjármálaráðherra um fjármögnun á tilteknu verkefni. Við erum ekki að ræða um samgönguáætlun eða vegáætlun eða vegaframkvæmdir að öðru leyti. Þeirri umræðu hvað þetta mál varðar lauk árið 2010 þegar Alþingi ákvað það og samþykkti lög um að stofna hlutafélag til að fara meðal annars í þessa tilteknu framkvæmd. Þar með var henni kippt út fyrir vegáætlun vegna þess að það var hægt að fara í hana á þeim forsendum að hún hefði ekki áhrif á samgönguáætlun að öðru leyti.

Hvað eðli þessa máls hér og nú snertir erum við ekki að tala um samgöngumál heldur erum við að líta á það frá sjónarhóli fjárlaganefndar og hvaða áhrif þessi framkvæmd hefur á fjárhag ríkisins, neikvæð eða jákvæð, og hvort við teljum rétt að fallast á og samþykkja frumvarp fjármálaráðherra út frá því sjónarhorni en ekki öðru.