140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að brýna raustina þannig að allir heyri hvað ég er að segja og endurtek það sem ég sagði áðan í andsvari mínu við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Hér er um að ræða frumvarp til laga um fjármögnun á tilteknu verkefni og álit Alþingis á því hvort rétt sé að veita fjármálaráðherra heimild til að fjármagna þetta verkefni og hver áhrif þess kunni að vera á ríkissjóð, jákvæð eða neikvæð. Hér er ekki til umræðu samgönguáætlun, forgangur í samgöngumálum eða jarðgangagerð að öðru leyti heldur snýst málið um ríkisfjármálin og áhrif þessara framkvæmda á þau, það snýst um fjármögnun verkefnisins og líkur á því að það verði greitt til baka eins og til er ætlast.

Við getum haft hinar ýmsu skoðanir á samgönguáætlun og ég ætla að leyfa mér að hafa hana (Forseti hringir.) og eins á forgangi vegaframkvæmda innan samgönguáætlunar. (Forseti hringir.) Ég mun lýsa skoðun minni þegar slík mál verða tekin hér til umræðu.