140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:47]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar í fullri vinsemd og af virðingu að biðja hv. þm. Björn Val Gíslason um að svara þeim spurningum sem til hans er beint og vil minna þingheim á að Vaðlaheiðargöng eru þrátt fyrir allt samgöngumannvirki og hljóta að eiga að skoðast í samhengi við þær áætlanir sem stjórnvöld og þingheimur sjá fyrir sér að verði gerðar hvað varðar samgöngumannvirki í landinu.

Ég ætla því að fá að endurtaka fyrri spurningu mína um forgangsröðun jarðganga og samgönguverkefna yfir höfuð þegar Vaðlaheiðargöng eru annars vegar, sérstaklega önnur jarðgöng, og bæta þar við að sérfræðingar hafa sagt að ekki sé æskilegt að ráðast í tvenn jarðgöng á sama tíma. Í því samhengi hlýtur einmitt að vera enn þá brýnna að þingheimur allur, þar með taldir hv. þingmenn fjárlaganefndar, geri sér grein fyrir (Forseti hringir.) hvernig rétt forgangsröðun er í þessum málum. (Forseti hringir.) Ég vil því fá að ítreka spurningu mína, sérstaklega með tilliti til þeirra sjónarmiða þar sem varað hefur verið við því sérstaklega (Forseti hringir.) að ráðast í tvenn göng samtímis. (Gripið fram í.)