140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á það að þetta mál skuli ekki vera rætt samhliða samgönguáætlun. Við vitum af fjárfestingarstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem verið er að raða inn meiri fjármunum til þeirra verkefna og mun eðlilegra, skynsamlegra og betra væri fyrir alla aðila að ræða þessi mál tvö samhliða.

Vegna orðaskipta sem urðu hér áðan verð ég nú að geta þess að ég hélt ekki að nokkur einasti hv. þingmaður teldi þetta lengur vera einkaframkvæmd en ég hef greinilega misskilið það. Ég skora á þá hv. þingmenn sem líta svo á að þetta mál sé einkaframkvæmd, og þurfi þess vegna ekki að vera til umfjöllunar í samgönguáætlun, að fara vandlega yfir umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. (Gripið fram í.) Ég vil líka beina því til hv. þingmanna að fara yfir það sem skrifað er í nýjasta tímariti Seðlabankans þar sem þessi framkvæmd er færð úr því að vera einkaframkvæmd yfir í fjárfestingu á vegum ríkisins (HöskÞ: Aldrei verið einkaframkvæmd.) — Aldrei verið einkaframkvæmd, segir hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Björn Valur Gíslason sem flutti meirihlutaálitið fór mjög rækilega yfir það í sínu máli að (Gripið fram í.) það væri niðurstaða …

(Forseti (SIJ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni frið og hljóð til þess að halda ræðu sína.)

… meiri hluta hv. fjárlaganefndar að þetta mál ætti að standa undir sér að öllu leyti og þess vegna væri það ekki í samgönguáætlun. Ég hef reyndar efasemdir um að það sé þannig.

Ég skil hins vegar að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir skuli spyrja: Hver eru þá næstu jarðgöng? Ég bið hv. þingmenn að íhuga það að á sama tíma og búið verður að raða þeim á framkvæmdatímann á að fara í endurfjármögnun á Vaðlaheiðargöngum. Ef það gengur ekki eftir, sem ég hef mjög miklar efasemdir um, þá sýnist mér fyrirsjáanlegt hvað muni gerast.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að snúa mér að því að fara yfir álit 1. minni hluta nefndarinnar sem ég er framsögumaður fyrir en hv. þm. Illugi Gunnarsson ritar undir það álit ásamt mér. Ég ætla ekki að fara yfir þá gesti sem komu á fundinn því að hv. þm. Björn Valur Gíslason gerði það, en ég vil byrja á því að fara yfir forsögu verkefnisins.

Forsögu verkefnisins má rekja til þess að í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, sem gerður var í júní 2009, kemur fram að ríkisstjórnin muni greiða götu stórframkvæmda og í þeim tilgangi að fjármagna þær verði meðal annars gengið til samstarfs við íslenska lífeyrissjóði. Þó svo að frumvarp þetta geri ráð fyrir aðkomu lífeyrissjóða landsmanna að þeim verkefnum sem um ræðir er gert ráð fyrir því að aðrir mögulegir fjárfestar standi sjóðunum jafnt að vígi hvað þetta varðar enda má gera ráð fyrir því að við fjármögnun umræddra verka verði aðkoma annarra innlendra sem erlendra fjárfesta eða lánveitenda tryggð. — Svo mikil var trúin á verkefninu, að það yrði slegist um að komast að því.

Í meðförum þingsins og í meðförum hv. samgöngunefndar á þeim tíma var fyrst gert ráð fyrir að stofna eitt hlutafélag en síðan var gerð breytingartillaga og þau urðu tvö, annars vegar um einkaframkvæmdir á suðvesturhorninu, svokallaðar stofnbrautir, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, og Reykjanesbraut, og hins vegar Vaðlaheiði.

Til að þessi áform stjórnvalda um einkaframkvæmdir í vegamálum gengju eftir var leitað heimildar til stofnunar hlutafélaga um Vaðlaheiðargöng og um tvöföldun á Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut. Í nefndaráliti samgöngunefndar eru forsendur Alþingis fyrir verkefninu áréttaðar á þennan veg — og þá kem ég að því sem kom fram í andsvörum á milli hv. þingmanna Marðar Árnasonar og Björns Vals Gíslasonar, þar sem eftirfarandi er sérstaklega áréttað við afgreiðslu málsins á þinginu á þeim tíma:

„Nefndin vekur athygli á því að við 1. umræðu um málið á Alþingi virtist vera þverpólitísk sátt um meginmarkmið frumvarpsins. Þó komu þar fram orð er gáfu til kynna að hætta kynni að felast í stofnun hins opinbera hlutafélags og þeim framkvæmdum sem áætlað er að það leggi í þar sem fjárhagsleg skuldbinding ríkissjóðs kæmi ekki fram í ríkisreikningi. Telur nefndin rétt að benda á að samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga takmarkast skuldbinding hluthafa í opinberum hlutafélögum við það hlutafé sem þeir leggja til félagsins. Er það því skilningur nefndarinnar að engin bein ábyrgð verði felld á ríkissjóð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þá felur frumvarpið í sér að félagið skuli með gjaldtöku standa undir kostnaði sem til fellur vegna þeirra verkefna er það leggur út í.“

Þetta er ítrekað í nefndaráliti samgöngunefndar á þeim tíma og þar er sagt, með leyfi forseta:

„Nefndin áréttar hér þennan skilning sinn og tekur fram að hann er veruleg forsenda fyrir því áliti hennar sem hér er sett fram.“

Það er sérstaklega áréttað þó að það hafi komið fram í textanum á undan, að það væri alveg klárt af hálfu hv. samgöngunefndar á þeim tíma, þegar mælt var fyrir stofnun hlutafélagsins, og hún lagði til að það yrði samþykkt, að enginn kostnaður mundi falla á ríkissjóð vegna þessa verkefnis.

Nú vil ég fara aðeins yfir framvindu verkefnisins, með leyfi forseta:

„Í ljós kom að ekki var fyrir hendi viðbótargreiðsluvilji hjá væntanlegum notendum vegabótanna á Suðurlandi, Reykjanesi og Vesturlandi og var því horfið frá því verki.“

Það var ástæðan fyrir því að horfið var frá því verkefni að fara í stofnbrautirnar hér á suðvesturhorninu. Það voru ekki lífeyrissjóðirnir sem féllu frá því heldur var það fyrst og fremst vegna þess að mjög kröftug mótmæli bárust frá sveitarstjórnarmönnum á þessum svæðum. Þeir bentu á að þegar væri verið að greiða skatta og gjöld í gegnum eldsneyti og annað sem ætti að duga fyrir þeim vegaframkvæmdum og þeir sættu sig ekki við að farið yrði í þessar framkvæmdir á þeim forsendum sem voru þar. Þó var talað um að sá kostnaður sem yrði samhliða því að fara í þær framkvæmdir væri um það bil 160–180 kr. á ferð.

Niðurstaðan varð sú að forustumenn sveitarfélaganna og íbúarnir í þeirra umboði höfnuðu því að fara í aukna gjaldtöku, höfnuðu því að fara í verkefni á þeim forsendum. Þess vegna datt það verkefni upp fyrir. Það voru mjög skýr skilaboð um það.

Síðan gerðist það til viðbótar við þessi verkefni að:

„Lífeyrissjóðirnir reyndust ekki tilbúnir til að fjármagna Vaðlaheiðargöng á þeim forsendum sem þá lágu fyrir. Eftir að slitnaði upp úr viðræðum stjórnvalda við lífeyrissjóði um fjármögnun framkvæmdarinnar haustið 2010 og forsendur um einkaframkvæmd gengu ekki eftir tók umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis málið upp aftur að eigin frumkvæði haustið 2011.“

Ég vil árétta það sérstaklega, virðulegi forseti, að það var hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem tók málið aftur til sín en því var ekki beint til hennar af hálfu framkvæmdarvaldsins. Við sáum í umfjöllun um málið í fjölmiðlum á þeim tíma að vilji virtist til þess hjá hæstv. ríkisstjórn að halda verkinu áfram. Þó að þetta hafi verið eins og ég rakti hér á undan, að slitnað hafi upp úr viðræðum og einungis verið búið að setja einn milljarð í fjáraukalög fyrir árið 2011, virtist vera einbeittur vilji hjá framkvæmdarvaldinu til að halda áfram með verkefnið þó svo að þessi brotalöm hafi komið upp. Mikilvægt er að árétta það í þessari umræðu að hv. umhverfis- og samgöngunefnd tók málið að sínu frumkvæði inn í nefndina og ég ítreka það vegna þess sem gerist eftir að það kemur þangað inn.

Við úrvinnslu málsins óskaði umhverfis- og samgöngunefnd eftir að unnin yrði fyrir nefndina sjálfstæð og óháð úttekt á málinu til að kortleggja sem best hagsmuni ríkisins, áhættu og óvissuþætti. Þessi beiðni umhverfis- og samgöngunefndar var hunsuð og þess í stað lét fjármálaráðuneytið greiningarþjónustu IFS vinna verkefnið. Fyrsti minni hluti gagnrýnir að málið var ekki sett í þann farveg sem umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir. Eðlilegt hefði verið að Alþingi hefði haft forræði á skýrslubeiðninni og forskriftinni að því hvað gera þyrfti og hvern ætti að velja til verksins enda óskin um úttektina tilkomin að frumkvæði nefndar þingsins en ekki framkvæmdarvaldsins.

Ég verð að undirstrika það hér, virðulegi forseti, að ég gagnrýni þetta mjög harkalega. Ég gagnrýni það að þegar hv. umhverfis- og samgöngunefnd óskar eftir því að fjallað verði um málið og tekur málið til sín að eigin frumkvæði, fer fram á að gerð sé óháð úttekt á því, skuli framkvæmdarvaldið stíga fram og segja: Við ætlum að láta skoða málin.

Ég vil í því sambandi minna hv. þingmenn á umræðuna um þingsályktunartillögu þingmannanefndar vegna rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er eina málið sem samþykkt hefur verið 63:0, það er mikilvægt að undirstrika það, og nú ætlaði Alþingi ekki að láta framkvæmdarvaldið komast upp með þau vinnubrögð sem tíðkuðust á árum áður. Við héldum að orðið hefðu skil í þessari vegferð, að við hefðum þurft að horfast í augu við nógu alvarlegar afleiðingar af slíkum vinnubrögðum. Við héldum að nú ætlaði Alþingi að fara að vinna faglega, gera kröfur og standa í lappirnar, eins og sagt var.

Ekki þarf að rifja það upp að mjög margir hv. þingmenn úr öllum flokkum héldu þá sambærilegar ræður og ég flyt hér nú, að nú hefðu orðið vatnaskil. En þegar á reynir og eitthvað gerist þá er það allt gleymt og grafið, þá virkar það ekki lengur. (Gripið fram í.) Þess vegna gagnrýni ég mjög harðlega — ég ætla ekki að fara yfir þann sorgarferil allan, ég leyfi mér að nota það orð — að hv. umhverfis- og samgöngunefnd sé dregin á asnaeyrunum, að því er mér fannst. (HöskÞ: Hún gerði það sjálf.) — Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kallar hér fram í: Hún gerði það sjálf. Því er ég algjörlega ósammála. Ég lít svo á að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi verið að rækja hlutverk sitt fyrir þingið eins og aðrar hv. þingnefndir eiga að gera. (HöskÞ: Hvenær komu athugasemdir fyrir fjárlaganefnd?) (Gripið fram í: Herra forseti.)

(Forseti (SIJ): Forseti ítrekar þau tilmæli sín til þingmanna að gefa ræðumönnum hljóð þannig að ræðumaður geti flutt ræðu sína án truflunar.)

Eftir þá miklu vinnu sem þar fór fram kemur bréf frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og vitna ég orðrétt í stuttan bút úr því, með leyfi forseta, þar sem helsta niðurstaðan er rakin:

„Allir hljóta að vera sammála um að stærsti eigandi Vaðlaheiðarganga hf., ríkissjóður, eigi að gera stífar kröfur til áætlanagerða um svo fjárfrekt verkefni og að eftirlit Alþingis eigi ekki einungis að taka til liðinna atburða heldur skuli beitt forvirkum aðgerðum eftir því sem kostur er. Að mati meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er ekki ásættanlegt að langtímafjármögnun Vaðlaheiðarganga sé ekki betur frágengin en raun ber vitni. Ekki hefur enn fundist einkaaðili sem er reiðubúinn að taka verkefnið að sér og líkur á að ríkissjóður muni í reynd sitja uppi með alla áhættuna. Vandséð er að Ríkisábyrgðasjóður geti tekið ábyrgð á lánveitingunni miðað við þau lög sem um sjóðinn gilda nema eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. verði aukið verulega en í því félagi á ríkissjóður ríflega helming hlutafjár. Afar hæpið virðist að aðrir aðilar muni yfirtaka verkefnið á þessu stigi og því eru allar líkur á að ríkissjóður verði að leggja fram eigið fjármagn, þ.e. aukið hlutafé. Það var aldrei ætlunin og þá er fallin sú forsenda verkefnisins að ríkissjóður komi ekki til með að kosta það. Of mikil óvissa og áhætta eru á ábyrgð þeirra sem ekki var ætlunin að ábyrgðist verkefnið. Áhættan er með öðrum orðum öll á skattgreiðendur.“

Ég ætla að vitna áfram í nefndarálit mitt og hv. þm. Illuga Gunnarssonar, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í bréfi umhverfis- og samgöngunefndar efast nefndin um að Ríkisábyrgðasjóður geti tekið ábyrgð á lánveitingunum samkvæmt þeim lögum sem um sjóðinn gilda nema eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. verði aukið verulega. Nú hafa þessar efasemdir nefndarinnar verið staðfestar og þess vegna hefur fjármálaráðherra lagt fram það frumvarp sem við ræðum hér. Er að mati 1. minni hluta umhugsunarvert að í frumvarpinu“ — nú bið ég hv. þingmenn að taka sérstaklega vel eftir — „er tekin úr sambandi fjármálaregla, sem þó er fyrir hendi hjá ríkissjóði, til að koma í veg fyrir að ríkissjóður taki of mikla áhættu og verði fyrir fjárhagslegu tjóni. Má í þessu sambandi nefna að í lokafjárlögum ársins 2010“ — sem bíða 3. umr. og verða væntanlega samþykkt í næstu viku — „sem Alþingi mun væntanlega samþykkja á næstu dögum, eru gjaldfærðar ríkisábyrgðir að fjárhæð um 27,5 milljarðar kr., sem er skýr áminning um hve mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í því að veita ríkisábyrgðir. Virðist því full ástæða til að undirstrika að Alþingi ætti að fara varlega í þessu máli. Sökum þess að fyrrgreind regla er tekin úr sambandi …“

Ég hvet hv. þingmenn til að hugsa það mjög vandlega að nánast í sömu andrá og við ætlum að samþykkja þetta frumvarp, verði það niðurstaða meiri hluta Alþingis, er verið að afskrifa 27,5 milljarða kr. úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgða. Ég efast ekki um að þegar þær voru veittar höfðu menn væntingar um að þær mundu ekki falla á ríkið.

Ég ætla síðan að fara yfir þessar fjármálareglur sem eru fyrir hendi hjá ríkinu, þær sem eru teknar úr sambandi í þessu verkefni. Reglurnar eru þessar:

„1. leggja fram að minnsta kosti 20% af heildarfjárþörf verkefnisins,

2. leggja fram viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs,

3. gæta þess að ábyrgð ríkissjóðs skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er ríkisábyrgð.“

Ég skora enn og aftur, virðulegi forseti, á hv. þingmenn að fara mjög vandlega yfir álit Ríkisábyrgðasjóðs og umsögn gagnvart þessu frumvarpi því að þeir færa efnislega sterk rök fyrir sínum málum. Og við skulum reyndar ekki gleyma því að þetta eru okkar helstu sérfræðingar á því sviði hvernig beri að fara með þessa hluti.

Í 1. gr. frumvarpsins er sett pósitíft ákvæði um það að þrátt fyrir þær fjármálareglur sem hér eru inni, um það að það eigi að vera viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs, er sett pósitíf regla: Framkvæmdin og hlutafélagið skulu vera nægileg trygging. Punktur.

Ég hef velt því fyrir mér, virðulegi forseti: Erum við hugsanlega á sömu leið og bankarnir voru fyrir hrun? Erum við hugsanlega að taka of mikla áhættu og fjármagna verk til skamms tíma í þeirri trú að okkur gangi vel að fjármagna það þegar verkinu er lokið? Í rannsóknarskýrslu Alþingis, og kannski blasti það við í daglegum fréttum á þessum tíma, kemur fram að það var það sem felldi bankana. Þeir tóku í fyrsta lagi allt of mikla áhættu og voru í öðru lagi með skammtímafjármögnun. Þess vegna spyr ég réttilega að mér finnst: Erum við hugsanlega á sömu braut og þeir voru á þeim tíma? Og það var þetta sem felldi þá. Ég bið hv. þingmenn að hugsa um þetta.

Ég fer síðan yfir helstu veikleika verkefnisins, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti telur afar ólíklegt að það takist að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar með þeim lánakjörum að verkefnið standi undir sér og ríkissjóður fái lán sitt þannig endurgreitt. Má í því sambandi benda á að í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs kemur fram að við endurfjármögnun á láni til Vaðlaheiðarganga hf. án ríkisábyrgðar yrði raunvaxtastigið 6,8–7,3% í stað 3,7% sem gert er ráð fyrir í forsendum verkefnisins.“

Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegur forseti, að eftir að forsvarsmenn Ríkisábyrgðasjóðs komu á fund hv. fjárlaganefndar, fóru yfir umsögn sína, forsendur sem þeir gefa sér og vinnubrögð sín í áranna rás þá efast ég ekki um niðurstöðu Ríkisábyrgðasjóðs. Það getur verið aðrir geri það en þá krefst ég þess að þeir útskýri það en segi ekki bara: Við teljum bara að þetta gangi eftir. Mér finnst eðlilegt að kalla eftir því að menn færi rök fyrir því ef þeir efast um það sem kemur fram í vandaðri umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um málið.

„Það kemur reyndar fram í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs að ef vextir á langtímaláninu verða 7%“ — það er þeirra mat að svo verði — „muni göngin ekki standa undir sér, þrátt fyrir að allar aðrar forsendur Vaðlaheiðarganga standist. Eigið fé félagsins verði þannig orðið neikvætt um rúmlega 5 milljarða kr. árið 2045. Jafngildir 7% raunávöxtunarkrafa á langtímaláninu 100% líkum á greiðslufalli. Raunar séu 100% líkur á greiðslufalli við 5,3% ávöxtunarkröfu og þar yfir.“ — Og það er hægt að lesa út úr skýrslu IFS Greiningar.

Mig langar líka að víkja að öðrum þætti: Í forsendum Vaðlaheiðarganga hf. er gert ráð fyrir að um 90% bílstjóra nýti sér göngin. Mig langar að skjóta því hér inn í að þegar fundað var með fulltrúum frá Speli upplýsti sá fulltrúi sem þar mætti fyrir hv. fjárlaganefnd að þegar farið var í Hvalfjarðargöngin, sem var einkaframkvæmd, hafi verið sagt: Það er algjörlega óraunhæft og það þýðir ekki fyrir ykkur að reyna að fara fram með þessa spá um 92% umferð, það tekur enginn þátt í því að fara í svoleiðis fjármögnun, enginn. Það verður að vera í kringum 70–72%. Öðruvísi munuð þið ekki fá nein tilboð í fjármögnun á því verki. Það þýðir ekki fyrir ykkur að reyna að fara með það fram þó að það sé ykkar trú, og það reyndist reyndar niðurstaðan.

Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Í forsendum Vaðlaheiðarganga hf. er gert ráð fyrir að 90% bílstjóra nýti sér göngin. Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir: „Umferð yfir sumartíma er mun meiri en vetrartíma. Meðalumferð sjö vikna yfir hásumartímann er um tvöföld meðalumferð ársins. Líklegt verður að telja að umferð ferðamanna og annarra sem ekki búa eða starfa á svæðinu yfir sumartímann skýri þennan mikla mun.“ Þessi mikli breytileiki vekur upp spurningar um greiðsluvilja ferðamanna. Að mati Hagfræðistofnunar hafa ferðamenn hugsanlega meiri áhuga á að aka um Víkurskarð en nota göngin. Að auki telur stofnunin að erfitt geti reynst að meta vilja ferðafólks að sumarlagi til að greiða veggjald og varar við því að hátt veggjald geti „fælt fleiri frá því að aka um göngin sem aftur gæti þrýst á frekari hækkun gjaldsins. Slík keðjuverkun gæti skapað mikla rekstraróvissu fyrir fjárfesta.“

Í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs er einnig bent á að þar sem tekjuforsendur ganganna byggist á skiptingu umferðar á milli Víkurskarðs og Vaðlaheiðarganga verði í ljósi mikillar óvissu að gæta varfærni í umferðarmatinu. Horft sé til reynslu Hvalfjarðarganga en þegar þau voru opnuð fóru um 92% umferðarinnar í gegnum göngin. Í því sambandi verði þó að hafa í huga að vegstytting Vaðlaheiðarganga verður um 15,7 km og tímastyttingin um 11 mínútur. Til samanburðar sé vegstytting Hvalfjarðarganga til Akraness 60 km og til Borgarness 42 km og vegstytting að meðaltali í tíma um 35 mínútur þegar ekið er á 84 km hraða á báðum þessum leiðum.“

Síðan er rætt um gögn Vegagerðarinnar og vil ég því undirstrika að enginn er færari í því en Vegagerðin sjálf að gera umferðarspá. Ég efast ekkert um mat þeirra á umferðarspám. En við vitum vissulega að óvissubreytur eru margar og ákveðnir fyrirvarar eru gerðir við niðurstöðuna vegna þess að menn geta ekki með fullri vissu, hvorki þeir né aðrir, sagt til um hver raunin verður. En þeir byggja álit sitt á mjög góðum gögnum hvað varðar þá aukningu á umferð sem er að verða í landinu og á því hvað gerist við að stytta vegalengdir. Ég efast því ekkert um það, bara svo að það sé alveg skýrt.

Það eina sem við vitum, og það kom fram í meðförum hv. fjárlaganefndar, er að frá því að umferðarspáin var núllstillt, eða sem sagt á upphafspunkti hennar, var gert ráð fyrir ákveðinni aukningu en ef við tökum tímapunktinn í dag er hún 10% undir því sem gert hafði verið ráð fyrir. Það er það eina sem við vitum. Það vantar 10% upp á að áætlunin um umferðaraukninguna gangi eftir.

Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Gögn Vegagerðarinnar sýna að umferð um Víkurskarð hefur dregist saman um 10% sem hefur auðvitað áhrif á tekjur og um leið endugreiðslugetu verkefnisins.

Ekki er gert ráð fyrir að fyrirtækið greiði tekjuskatt og er ekki að finna heimild í lögum til að undanskilja það skattgreiðslum. Undanþágan virðist einkum hafa áhrif á greiðslugetu fyrirtækisins eftir árið 2030 og þarf þá að hafa í huga að réttur hlutafélags til að nýta tap til lækkunar á tekjuskatti fyrnist á 10 árum.“

Það á kannski eftir að setja fleiri greinar í lögin um þetta félag þannig að forsendur gangi eftir. Þannig eru lögin í dag. Ekki er búið að setja inn í lögin að ekki þurfi að greiða tekjuskatt og rétturinn til að nýta tapið fyrnist á tíu árum, þannig að væntanlega þarf að setja lög um það til viðbótar.

Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir ómannaðri gjaldtöku. Ekki hefur komið fram með hvaða hætti gjaldtakan mun fara fram. Að mati IFS Greiningar sem Ríkisábyrgðasjóður tekur undir þyrfti að rökstyðja betur lágan kostnað við innheimtu.

Ekki hefur enn verið gengið frá ýmsum kostnaðarliðum í áætlunum fyrirtækisins. Má þar nefna tryggingar, stjórnunarkostnaður er líklega vanmetinn og fleira mætti tína til.

Fyrsti minni hluti tekur undir ábendingar Ríkisábyrgðasjóðs og IFS Greiningar um að mikilvægt er að rökstyðja þurfi vel þetta lægra kostnaðarmat áður en tekin er lokaákvörðun um að vinna eftir því.“

Þá komum við að spurningunni: Er þetta opinber framkvæmd eða einkaframkvæmd?

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í meðförum fjárlaganefndar hefur komið skýrt fram að framkvæmdin uppfyllir ekki skilyrði þess að vera talin einkaframkvæmd þar sem öll áhætta verkefnisins hvílir á ríkissjóði. Á það er bent í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs.

Fyrsti minni hluti er sammála áliti Seðlabankans, sem fram kemur í ritinu Þróun og horfur í efnahags- og peningamálum, um að flokka beri fjárfestingu í Vaðlaheiðargöngum sem opinbera fjárfestingu. Grunnatriði einkaframkvæmdar er að saman fari ábyrgð á rekstri og fjárfestingu samkvæmt skýrslu nefndar fjármálaráðherra frá árinu 1998 um aðferðafræði einkaframkvæmdar. Einkaframkvæmd felur í sér samning milli ríkis og einkaaðila um hvernig þeir skipti á milli sín áhættu af verkefni.“

Niðurlag okkar er með þeim hætti að í útboðslýsingu kemur fram að samningur við aðalverktaka sé verðbættur miðað við núverandi byggingarvísitölu og verðlag tilboðs skuli vera miðað við byggingavísitölu í ágúst 2011 sem var þá 110,8 stig en er nú í maí 2012 þegar komin í 115,0 stig. Þetta þýðir að göngin hafa þegar hækkað, eða verktakaþátturinn, um 3,8% en heildartilboð aðalverktaka er þá 8,8 milljarðar og er uppreiknað 9,2 milljarðar, án virðisaukaskatts.

Ég vil líka vekja athygli á því sem kemur fram í umsögn Eyþings vegna endurskoðunar á samgönguáætlun 2010. Í nefndarálitinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í umsögn Eyþings vegna endurskoðunar á samgönguáætlun 2010 segir: „Gert er ráð fyrir að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga með sérstakri fjármögnun samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Stjórnin vill í því sambandi vekja athygli á því að ítrekað hefur komið fram að með öllu óraunhæft er að reikna með að veggjöld standi að fullu undir framkvæmdinni.““

Þetta var mat forsvarsmanna Eyþings á þessum tíma.

Áfram segir:

„Fyrsti minni hluti leggst gegn samþykkt frumvarpsins þar sem ekki er um einkaframkvæmd að ræða heldur ríkisframkvæmd. Framkvæmd Vaðlaheiðarganga getur ekki flokkast sem einkaframkvæmd enda er gert ráð fyrir því að ríkissjóður taki á sig alla áhættu af fjármögnun verkefnisins auk þess sem treyst er á að fjárfestar endurfjármagni verkefnið án ríkisábyrgðar árið 2018. Áhætta ríkisins eins og hún birtist í frumvarpinu er slík að eðlilegt er að ríkissjóður fjármagni verkefnið að fullu með sama hætti og aðrar opinberar framkvæmdir. Í það minnsta þarf að styrkja eiginfjárgrundvöll þess mikið til að eyða greiðslufallsáhættu. 1. minni hluti leggur því til að verkefninu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem finni því stað í samgönguáætlun að teknu tilliti til ávinnings með innheimtu veggjalda. Verði niðurstaða Alþingis að veita verkefninu brautargengi telur 1. minni hluti að rétt sé að tryggja fjármögnun þess yfir greiðslutímann.“

Um það þarf ég ekki að hafa mörg orð, enda er tími minn útrunninn.