140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:25]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og vandaða yfirferð, hann hefur greinilega sett sig mjög vel inn í allt þetta mál. Hann kom inn á hrun bankanna og kannski dálítið óþægilegar hliðstæður að einhverju leyti við þetta mál, þ.e. að bankana skorti einmitt langtímafjármögnun og tóku svona mikla áhættu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem Ríkisábyrgðasjóður bendir á, langtímafjármögnunina og gerir alvarlegar ábendingar og athugasemdir.

Með hvaða hætti telur hv. þingmaður að tekið sé tillit til þessara ábendinga og athugasemda Ríkisábyrgðasjóðs? Og ef þingið tekur ekki tillit til þeirra og hlustar ekki á þau ráð, hversu alvarlegt er það þá í sjálfu sér?

Annað því tengt. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og í nefndaráliti er verið að taka úr sambandi tiltekna liði í lögum um Ríkisábyrgðasjóð. Að sjálfsögðu eru þessi lög sett í þeim tilgangi einmitt að verja ríkissjóð og til að farið sé eftir reglum um hvernig við eigum að haga okkur í því sambandi. Þá spyr ég aftur: Hversu alvarlegt telur þingmaðurinn það vera að taka tiltekna þætti úr sambandi í þessum reglum, sem við setjum okkur til að reyna að hafa skikk á hlutunum, og hversu fordæmisgefandi er það og á að vera? (Forseti hringir.) Ég kem vonandi að öðrum spurningum í seinna andsvari.