140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni og bað hv. þingmenn um að hugsa það með mér að hér er í raun, að mínu mati, verið að fara sömu leið og felldi bankana, þ.e. með of mikilli áhættu og skammtímafjármögnun sem á að redda seinna. Mér finnst það blasa við.

Hv. þingmaður spyr líka hvort tekið sé tillit til ábendinga Ríkisábyrgðasjóðs. Ríkisábyrgðasjóður setur fram vandaða og ítarlega umsögn með frumvarpinu og þeir hv. þingmenn sem vilja ekki taka mark á því áliti og fara eftir þeim leiðbeiningum verða auðvitað að útskýra það sjálfir. Ég kalla eftir því. Þeir hafa sumir hverjir komist að annarri niðurstöðu en sá er hér stendur. Mér hefur alltaf fundist ágætt, hvort sem málin eru stór eða smá, að við tökum efnislega umræðu um þau og við eigum ekki að vera hrædd við rökræðuna.

Ábendingar Ríkisábyrgðasjóðs eru mjög umhugsunarverðar og ég kom töluvert inn á það í máli mínu. Við getum bara sett þetta svona fram: Af hverju er verið að setja lög um Ríkisábyrgðasjóð og hvernig hann á að starfa? Það er auðvitað til að tryggja að ekki verði tekin óþarflega mikil fjárhagsleg áhætta gagnvart ríkissjóði. Það blasir við að þessar þrjár meginreglur, ef ég má orða það þannig, gagnvart áhættunni, eru bara teknar úr sambandi. Og þá þarf maður auðvitað líka að spyrja sig: Hvaða fordæmi mun þetta mál gefa gagnvart öðrum málum? Það er auðvitað mikið umhugsunarefni.