140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:29]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og líka fyrir það sem hann hefur einmitt bent á, að sem ríkisframkvæmd og samgöngumál á þessi framkvæmd að sjálfsögðu heima hjá samgöngunefnd. Eins og bent var á í máli hv. þingmanns mun þessi þáttur veggjaldanna hafa áhrif á hvernig raðað er, en það þarf þá að taka það inn í heildarmyndina.

Þá kemur að annarri spurningu sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að. Nú hefur það komið fram að sérfræðingar telja ekki æskilegt að fara í tvenn jarðgöng samtímis — með hvaða hætti ætlum við að taka á heildarmyndinni og láta ekki eins og Vaðlaheiðargöng komi engu öðru við, sé bara verkefni algjörlega óháð öðrum verkefnum? Með hvaða hætti telur hv. þingmaður eðlilegt að samgöngunefnd bregðist við hvað varðar samgönguáætlun og aðrar framkvæmdir? (Forseti hringir.) Er hægt að láta eins og þetta sé fullkomlega aðskilið (Forseti hringir.) öðrum samgöngumannvirkjum, komi þeim ekkert við og muni ekki hafa nein áhrif á aðrar framkvæmdir (Forseti hringir.) eða þarf að horfa á hlutina í samhengi?