140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er mjög einfalt við spurningu hv. þingmanns. Það er auðvitað já, það er mjög mikilvægt og þess vegna er fagnefnd þingsins, hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að fjalla um og skoða alla þessa kosti.

Er skynsamlegt að gera tvenn jarðgöng í einu? Ég stórefast um það. Ég held að það liggi meira að segja fyrir upplýsingar frá Vegagerðinni um að það sé ekki æskilegt, að menn vilji hafa það í ákveðinni samfellu, en síðan er búið að vera ákveðið stopp og svo eru tvenn göng tekin. Auðvitað þarf hv. samgöngunefnd, sem er fagnefnd þingsins, að fara yfir þetta og kalla eftir þessum upplýsingum hjá Vegagerðinni og fleiri aðilum sem geta veitt þær. Þetta gerðum við til að mynda ekki í hv. fjárlaganefnd, enda vorum við bara að fjalla um það hvort þetta verkefni stæði undir því að vera flokkað sem einkaframkvæmd.

Auðvitað hefur þetta verkefni áhrif á önnur samgönguverkefni hvort heldur sem við segjum að farið verði af stað með ein eða tvenn göng. Hvað þýðir það? Þýðir það að í annað verði meira og minna innflutt vinnuafl? Eða er skynsamlegra að fara í önnur verkefni sem eru þá mannaflsfrekari, dreifð um allt landið? Þess vegna segi ég: Þetta á að meta í hv. samgöngunefnd sem er fagnefnd þingsins og á að fara yfir þessa hluti.