140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé rétt. Undir venjulegum kringumstæðum væru þessar hugleiðingar meira svona akademísk æfing eða spjall yfir kaffibolla en hér skiptir þetta máli vegna þess að dæmið er svo tæpt í heildina.

Það sem mig langar að vekja athygli á í þessu sambandi — ég fæ tækifæri til að ræða þetta mál betur seinna í dag eða á morgun eða hvenær sem það verður — er að Vegagerðin er að einhverju leyti sett í þá stöðu að menn fara að spyrja af meiri ákefð um niðurstöður hennar. Vegagerðin er ekki lengur umsagnaraðili eða framkvæmandi fyrir hönd umbjóðanda síns, sem er ríkið, heldur er hún beinlínis orðinn hluthafi í fyrirtæki og sem slík hlýtur Vegagerðin að hugsa um hag fyrirtækis síns. Þá spyr maður auðvitað um rekstur Víkurskarðs eða afstöðu Vegagerðarinnar til almenningssamgangna — eiga þær eftir að mótast af (Forseti hringir.) þeirri nauðsyn að rekstur Vaðlaheiðarganga ehf. komi sem best út?