140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (frh.):

Forseti. Ég held þá áfram þar sem frá var horfið og get upplýst það að matarhléið var vel þegið, skálinn var þétt setinn og þar héldu menn áfram umræðum um hin ýmsu mál undir borðum.

Ég var langt kominn í ræðu minni. Ég vil leggja áherslu á að við mat á því hvort framkvæmdin geti staðið undir lánum vegna jarðgangagerðarinnar og reksturs ber að hafa í huga að gert er ráð fyrir að með veggjöldum um Vaðlaheiðargöng verði einnig með sömu gjaldtöku endurgreiddur kostnaður sem reiknaður er á framkvæmdina sem leiðir af sköttum og gjöldum sem ríkissjóður innheimtir vegna jarðgangagerðarinnar. Þar má sem dæmi nefna skatta vegna launagreiðslna, hlutdeild ríkisins í launasköttum nemur nokkur hundruð millj. kr. Sömuleiðis eru gjöld sem innheimt eru af innflutningi vegna aðfanga, olíu o.s.frv., virðisaukaskattur. Samtals er þetta gjaldtaka upp á hátt í 4 milljarða kr. og veggjöldin eiga síðan að endurgreiða þetta til baka. Nettókostnaður fyrir ríkissjóð að teknu tilliti til þessa er innan við 6 milljarðar í heildina. Þá hefur verið gert ráð fyrir kostnaði sem leiðir af þeim drætti sem á verkinu er orðinn.

Einnig er rétt að undirstrika að þegar við erum að ræða þetta verkefni sem eru samgöngubætur í tilteknum landshluta er ekki tekið tillit til óbeinnar arðsemi af jarðgangagerðinni. Þar má sem dæmi nefna afleiddan sparnað fyrirtækja, aukna framleiðni, lækkun á vöruverði, sparnað í ýmiss konar félagsstarfsemi, íþróttastarfi hvað þá öðru, aukna tekjumöguleika fólks og fyrirtækja, hækkun á fasteignaverði á tilteknum svæðum auk nýrra sóknarfæra í atvinnulífi í viðkomandi landshluta. Þetta er allt ómælt og er ekki tekið inn í neina arðsemisútreikninga sem við höfum fyrir framan okkur, en þó held ég að allir geti verið sammála um að þetta er heilt yfir og samandregið þau áhrif sem vænta má til góðs hvar sem samgöngubætur eiga sér stað á landinu, þetta eru áhrifin af þeim. Þau verða í mjög ríkum mæli tengd Vaðlaheiðargöngum, eins og ég rakti við upphaf ræðu minnar, einfaldlega vegna þess að miklir möguleikar eru til aukinnar verðmætasköpunar í þeim fjórðungi, hvort heldur er í nýtingu auðlinda eða ferðaþjónustu eða guð má vita hvað menn kjósa að nefna í þeim efnum.

Það er verkefni ríkisins að annast samgönguframkvæmdir, Vaðlaheiðargöng sem aðrar framkvæmdir, og ég vil undirstrika að um leið og notendur mannvirkja sem þessara þurfa að greiða fyrir notkun ganganna breytast allar arðsemisforsendur ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir því, og ég undirstrika það, að göngin muni þegar fram líða stundir verða eign ríkisins endurgjaldslaust þegar notendur hafa greitt kostnað. Takist ekki að ná öllum kostnaðinum til baka með notendagjöldum verður raunverulegur fjárfestingarkostnaður ríkisins hverfandi sem hlutfall af heildarkostnaði við framkvæmdina.

Það verður aldrei unnt með fullri vissu að hafa örugga tryggingu fyrir því að Vaðlaheiðargöng hf. muni standa undir sér með veggjöldum, slíka tryggingu verður aldrei unnt að veita. Jarðgöngin gætu allt eins tekið upp á því að standa undir öllum kostnaði eða í versta falli gæti þurft að styrkja verkefnið með auknu eigin fé eða ætla lengri tíma til endurgreiðslu lána. Sú rökfræði sem stunduð er hér um þann kostnaðarþátt sem af þessu leiðir er með þeim hætti að allir eru að reyna sannfæra hver annan um að hver og einn hafi rétt fyrir sér. Í mínum huga eru þetta skylmingar sem skila okkur í rauninni ekki nokkrum sköpuðum hlut miðað við þær röksemdir sem fram hafa verið færðar.

Ég vil undirstrika að sá vandræðagangur sem verið hefur á úrvinnslu stjórnvalda á þessu framfaraverkefni er með miklum ólíkindum. Það liggur fyrir að mjög víða eru úrtöluraddir og andstæðingar framkvæmdar þessarar er víða að finna. Það er í sjálfu sér engin nýlunda, við fáum slík sjónarmið iðulega upp í kringum stórframkvæmdir. Nægir í því efni að fara aftur til Borgarfjarðarbrúarinnar og ef menn vilja fara nær í tíma skulum við ræða Hvalfjarðargöngin, Héðinsfjarðargöngin eða Bolungarvíkurjarðgöng.

Hins vegar hefur ekkert nýtt komið fram í þessu máli frá því sumarið 2010 sem breytir forsendum þegar tekinna ákvarðana Alþingis um framkvæmdina. Engar tillögur um annað verklag hafa verið lagðar fram í meðferð þessa máls eða haldbær rök færð fyrir því að hætta við verkið eða setja það að öðru leyti í uppnám með því að slá því á frest.

Ég legg áherslu á að afstaða mín byggir á þeim röksemdum sem ég hef fært fyrir henni í þeirri ræðu sem ég hef flutt hér með tiltölulega stuttu hléi að þessu sinni og ég tel gerð Vaðlaheiðarganga afar mikilvæga framkvæmd. Að gefnum þeim forsendum sem ég hef farið yfir í ræðu minni og liggja fyrir í því nefndaráliti sem ég hef lagt fram, legg ég til að það frumvarp sem fjármálaráðherra flutti á Alþingi fyrir ekki löngu síðan verði samþykkt.