140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að um þetta verkefni gildi í raun nákvæmlega það sama og Ríkisendurskoðun sagði varðandi Hvalfjarðargöngin. Þetta er ekki einkaframkvæmd í skilningi þess hugtaks eða þeirrar aðferðar við fjármögnun verkefna. Þetta er ríkisframkvæmd sem greidd er til baka með vegtollum, það er mín skoðun. Þær áætlanir sem lagðar hafa verið fyrir nefndina, sú vinna og skýrslugjöf sem við höfum fengið í hendur gefa mér enga ástæðu til að ætla annað en að að uppfylltum þeim forsendum sem fram hafa komið og ég geri grein fyrir í nefndaráliti mínu muni þetta mannvirki, þetta verkefni, standa undir þeim skuldbindingum sem á það verða lagðar.

Ég hef hins vegar ítrekað nefnt hér að það hefði verið æskilegra að vinna þetta verkefni að hluta til með öðrum hætti, en ég tel það enga afsökun til að stöðva það á þessari stundu.