140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur fléttað aðkomu mína að þessu máli rækilega inn í sína sögulegu útlistun og ég verð að segja að ekki fengi hann hátt á söguprófi hjá mér.

Þannig er með samgönguframkvæmdir og framkvæmdir yfirleitt í landinu að þær eiga sér iðulega langan aðdraganda. Í tilviki samgönguframkvæmda er ráðist í kostnaðarsamar rannsóknir, iðulega gerðir samningar við landeigendur áður en farið er af stað í framkvæmdirnar. Í sumum tilvikum er þetta látið liggja árum saman og þegar við skoðum dagsetningarnar allar verður að huga að sjálfum forsendunum og hvernig þær hafa breyst.

Upphaflega var gert ráð fyrir að ríkið fjármagnaði Vaðlaheiðargöng að helmingi til og hitt yrði á veggjöldum. Síðan var horfið frá þessu og þetta átti að verða einkafyrirtæki sem aflaði lánsfjár á markaði og risi algerlega undir sér. Hv. þingmaður vísar í opna fundi í samgöngunefnd sem ég hafi verið á. Þá fyrst fóru að vakna efasemdir hjá mér um að þær forsendur sem ég hafði gefið út mundu ekki standast (Forseti hringir.) og þetta þarf hv. þingmaður að hafa í huga.

Hann vísar í fund 25. mars 2011. Í júnímánuði það ár ítrekaði ég þá afstöðu að því aðeins væri heimilt af minni (Forseti hringir.) hálfu að ráðast í þessa framkvæmd að hún risi undir sér. Þegar efasemdir vakna um slíkt (Forseti hringir.) ber að íhuga málin að nýju.

Síðan eru aðrar forsendur (Forseti hringir.) sem ég mun gera grein fyrir í ræðu sem ég mun flytja um þetta mál fyrst kallað er eftir því.