140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er mikil ábyrgð að vera formaður fjárlaganefndar og mikil ábyrgð að vera alþingismaður. Ég tel mig taka þá ábyrgð alvarlega með því að fara yfir á hvaða forsendum ég styð þetta frumvarp og þær efasemdir sem ég hef um þær áætlanir sem lagt hefur verið upp með.

Nú er það ekki svo að Ríkisábyrgðasjóður vari við því að farið verði í þessa lánveitingu. Hann gerir alvarlegar athugasemdir við að raunhæft sé að endurfjármagna lánið og hvetur því til þess að ríkissjóður veiti lánið til langs tíma. Ég hef farið yfir það í ræðu minni að ég tek undir með Ríkisábyrgðasjóði en þar sem ekki er kveðið á um lánstímann í frumvarpinu tel ég frumvarpið eins og það er (Forseti hringir.) óbreytt, gera okkur kleift að fara að ábendingum Ríkisábyrgðasjóðs.