140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:24]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisábyrgðasjóður bendir á miklu meira en bara endurfjármögnunina í áliti sínu. Hann fer yfir allar forsendur Vaðlaheiðarganga hf. og gagnrýnir þær og gerir rækilega grein fyrir því að þær eru brostnar og ganga ekki upp. Umferðarspáin gengur ekki upp, þjóðhagslega hagkvæmnin er ekki til. Það eru fjölmörg atriði sem Ríkisábyrgðasjóður bendir á, ekki bara endurfjármögnunina.

Hann bendir meðal annars á varðandi endurfjármögnunina að ef vaxtastigið hækkar um 1% eru mjög miklar líkur á því að fyrirtækið verði gjaldþrota, og ef vextirnir fara upp í 5,7% eru 100% líkur á greiðslufalli fyrirtækisins. Samt ætlar hv. formaður fjárlaganefndar að styðja þetta nefndarálit og styðja þessa framkvæmd. Ég sé þess hvergi stað í nefndarálitinu að það eigi allt í einu að fara að breyta fjármögnuninni og framlengja lánið út í hið óendanlega, eins og hún hefur sagt í ræðustól, ég sé þess hvergi stað.