140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleymdi að vísu að minnast á í ræðu minni að ég lagði alla í fjárlaganefnd að jöfnu, en það kom minnihlutaálit frá tveimur sjálfstæðismönnum í fjárlaganefnd þar sem þeir gagnrýna þessa framkvæmd og gera það mjög málefnalega og rökfast. Ég bið þá afsökunar ef ég hef sakað þá um að bera ábyrgð á nefndaráliti meiri hlutans.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur tel ég að við séum komin að þeim tímamótum í samgöngumálum að við þurfum einmitt að setjast niður og skoða forgangsröðun framkvæmda út frá þeirri stöðu að ríkissjóður er nánast tómur og það eru ekki til peningar til að fjármagna dýrar samgönguframkvæmdir fyrr en eftir mjög langan tíma.

Ég hef almennt ekki verið hlynntur veggjöldum en ef það er einlægur greiðsluvilji íbúa á svæðinu að greiða sjálfir fyrir samgöngubótum á sínu svæði með veggjöldum, eins og komið hefur skýrt fram í Eyjafirði og nærsveitum, finnst mér að fjárlaganefnd — eða það ætti að sjálfsögðu að vera umhverfis- og samgöngunefnd — ætti einfaldlega að láta leggja mat á það hvort fara eigi í framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng á vegum ríkisins með lánsfjármögnun úr ríkissjóði sem verður svo endurgreidd á eins skömmum tíma og hægt er með veggjöldum. Það er miklu hreinna og beinna og eðlilegra fyrirkomulag en það mix og margra ára verkefni með töfum sem Vaðlaheiðargangaævintýrið hefur verið vegna þess að menn eru alltaf að fara einhverjar krókaleiðir með það. Það væri löngu búið að afgreiða þetta mál og langt komið með að grafa þessi göng ef menn hefðu komið heiðarlega fram frá upphafi og sagt: Nú ætlum við að fara út í vegaframkvæmdir á Íslandi með öðrum hætti en hingað til og í sumum tilfellum ætlum við að láta notendur greiða fyrir. Það hefði verið miklu hreinna. Ég tel að það eigi að skoða kirfilega og það þurfi að gera í umhverfis- og samgöngunefnd.