140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Í nefndaráliti fjárlaganefndar, eða meiri hlutans, eru einfaldlega endurteknar tölur frá Vaðlaheiðargöngum hf. um að 210 ársverk verði til á framkvæmdatímanum auk þess sem allt að 30 afleidd ársverk bætist við vegna framkvæmdarinnar. Ég á svolítið erfitt með að sjá fyrir mér 300 manns vinna í jarðgöngum, mér finnst það vera allt of mikið, en það getur vel verið að þeir hafi einhverjar forsendur fyrir því, en allar aðrar forsendur sem Vaðlaheiðargöng hf. hafa gefið í þessu máli hafa reynst rangar.

Það er rétt að þjóðhagsleg hagkvæmni þessara framkvæmda er miðað við tiltölulega lágt vaxtastig neikvæð um 1,7 milljarða, eins og forstöðumaður lánamála ríkissjóðs hefur bent á. Við eðlilegt vaxtastig er hún neikvæð um fleiri, fleiri milljarða þannig að út frá þeim sjónarmiðum er rangt að fara í þessa framkvæmd. Hún er miklu minna atvinnuskapandi en t.d. brúargerð. Menn hafa verið að tala um að það þurfi að fara út í brúargerð víðs vegar um landið og nefnt sérstaklega nokkrar stórar brýr, eins og yfir Hornafjarðarfljót þar sem brúin er nánast að molna í sundur. Slík vinna er miklu meira atvinnuskapandi en jarðgangagerð og býr til miklu meiri vinnu fyrir minni innlend verktakafyrirtæki en Vaðlaheiðargöng gera.

Þeir sem eiga lægsta tilboðið í Vaðlaheiðargöng er svissneska fyrirtækið Marti sem hefur einhver tengsl við Íslenska aðalverktaka, sem eru mjög óljós. Stór erlend verktakafyrirtæki skapa ekki endilega miklar tekjur fyrir íslensk fyrirtæki með sama hætti og minni og öðruvísi framkvæmdir mundu gera.

Þó að Vaðlaheiðargöng séu, eins og ég hef alltaf sagt, örugglega hin ágætasta samgöngubót — ég hef nú oft keyrt um Víkurskarð — eru þær forsendur sem menn gefa sér í nefndarálitinu og frumvarpinu algjörlega rangar (Forseti hringir.) í alla staði, að ég held.